Ingibjörg Sif Sigríðardóttir er varaformaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu. Hún býr ásamt eiginmanni sínum, Aðalsteini Elíassyni, í Reykjavík og starfar hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem bókari í reikningshaldi. Uppkomin börn þeirra tvö heita Daníel Már og Erla Rós. Ingibjörg Sif er fædd í Reykjavík en ólst upp til sex ára aldurs í Búðardal en fjöskyldan futtist þangað þegar faðir hennar fékk vinnu sem mjólkurbústjóri á staðnum. Hugur Ingibjargar Sifjar leitaði þó úr sveitinni og þorpinu til höfuðborgarinnar. Segir hún að hana hafi alltaf langað til að komast af malarvegunum á malbikið í Reykjavík.
„Ég varð fljótt leið á þessum holóttu vegum og drullupollum og var því fegin þegar við fluttum til Reykjavíkur. Ég bjó í eitt ár í Breiðholti og gekk í Hólabrekkuskóla en síðan fluttum við í Vesturbæinn. Þar óx ég upp og gekk í Melaskóla og síðar í Hagaskóla. Foreldrar mínir skildu þegar ég var tíu ára og bjó ég hjá mömmu eftir það.“
Úr Verzló til Orkuveitu Reykjavíkur
Úr Hagaskóla lá leiðin fyrst í Verzlunarskóla Íslands en síðan út í heim. „Ég tók mér árs leyfi frá námi og fór út til Lúxemborgar til að hugsa um hvað ég vildi verða þegar yrði stór eins og ungt fólk gerir. Þegar ég kom til baka kláraði ég námið í Verzlunarskólanum og þaðan lá leiðin til Ítalíu þar sem ég dvaldi í hálft ár. Mamma kynntist góðum manni á meðan ég var á þessu ferðalagi og þegar ég kom heim fluttist hann til mömmu en ég tók íbúðina hans á leigu. Það kom sér mjög vel,“ segir Ingibjörg Sif og hlær.
Móðir Ingibjargar var einstæð móðir með tvö börn á sínu framfæri og hafði því ekki mikið fé á milli handanna. Ingibjörg Sif sá um sig sjálf frá unglingsaldri og hugðnaðist henni betur að vinna fulla vinnu til að geta séð fyrir sjálfri sér heldur en að taka námslán eða vera upp á móður sína komin.
„Það var í mars 1992 sem ég fór að vinna hérna hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hér starfa ég enn í dag, þannig að ég er búinn að vinna hér í 29 ár, fyrst hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og síðar Orkuveitu Reykjavíkur, ef mér reiknast rétt til. Hér hef ég fengið að þróast mjög mikið sem starfsmaður og fengið að starfa á mörgum mismunandi sviðum innan fyrirtækisins,“ segir hún.
Sveigjanlegur vinnutími
Í dag vinnur hún á fjármálasviði OR þar sem hún tekur þátt í fjölbreyttum verkefnum á sviði fjármála, uppgjörs og núna í fjárhagsafstemmingum í uppgjörsteymi. Hún segir vinnustaðinn frábæran og sveigjanleikinn sé mikill.
„Þetta er frábær vinnustaður og hérna er vel hugsað um allt starfsólkið. Auðvitað finnst hér óánægt starfsfólk eins og gengur og gerist á vinnustöðum, en leitast er eftir því að mæta óskum og þörfum allra eins og hægt er. Við erum hætt að nota stimpilklukku og okkur er treyst fyrir verkefnunum. Enn fremur erum við beðin um að láta vita ef verkefnin dragast á langinn þ.e. fram yfir vinnuskylduna. Bókhaldsvinna er lotuvinna og því geta safnast upp vinnustundir eina vikuna sem við getum nýtt t.d. til að vinna færri stundir þá næstu,“ segir Ingibjörg Sif.
Svartur dagur í sögunni og eldskírn trúnaðarmannsins
Ingibjörg Sif hefur starfað að stéttarfélagsmálum í mörg ár. „Ég byrjaði 2009 sem trúnaðarmaður á vinnustaðnum og þá fer ég að kynnast starfi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, STFR. Þá var erfitt, og er reyndar enn þá, að fá trúnaðarmenn til starfa. Það vildi þannig til að samstarfskona mín hvatti mig til að gerast trúnaðarmaður. Sagði hún að þetta væri lítil vinna og ég þyrfti bara að mæta á nokkra fundi – bara gaman. Ég sló til og hugsaði með mér að ég gæti vel tekið þetta að mér. Ekki var ég búin að sinna þessu starfi nema í nokkra mánuði þegar uppsagnahrynur skullu á fyrirtækinu. Fyrst var 60 manns sagt upp störfum en í kjölfarið komu fleiri fjöldauppsagnir. Störf voru lögð niður og í sumum tilfellum heilu deildirnar sem ekki snéru að kjarnastarfsemi Orkuveitunnar.
„Þetta var erfiður tími í sögu fyrirtækisins. Alls staðar voru skorin niður störf. Fólk man þennan tíma sem svart tímabil í sögu þess. Fólk var á nálum yfir því að fá uppsögnina og enginn vissi hver yrði látinn taka pokann sinn næst. Að þessum uppsögnum var aðdragandi og því gat fólk að einhverju leyti vitað á hverju það átti von, en þetta tók á, þetta var erfitt þá og er enn erfitt fyrir fólk í dag. Við sem vorum trúnaðarmenn vorum boðuð á samráðsfundi og mikið mæddi á okkur. Trúnaðarmenn fyrirtækisins vissu af yfirvofandi uppsögnum en aldrei hvenær af þeim yrði. Svo kom dagurinn. Allir voru beðnir um að vera inni á vinnustaðnum og svo var fólki tilkynnt hver staðan væri. Fólki var greint frá þeim erfiðleikum sem fyrirtækið stóð frammi fyrir og taka yrði erfiðar ákvarðanir með niðurskurði á störfum innan þess. Okkur fannst ágætlega að þessu staðið af þeirra hálfu þrátt fyrir allt. Starfsfólk fékk styrki til að sækja sér aðstoð við að finna sér nýtt starf, það fékk lengri uppsagnarfrest miðað við starfsaldur umfram kjarasamning og því var boðið sálfræðiaðstoð. Það var reynt að standa að þessu með eins sanngjörnum hætti og hægt var,“ segir Ingibjörg Sif alvarleg í bragði.
Laun á milli markaða ójöfn
En hvers vegna er Ingibjörg Sif að starfa fyrir stéttarfélag og hvað er það sem drífur hana til þessa starfa? Hún segist hafa leiðst út í þetta. Fyrst sem trúnaðarmaður, hafi svo komið inn í stjórn sem ritari og síðar var hún beðin um að taka sér varaformennsku hjá Sameyki. Hún segir að áhuginn á launamálum tengist líka sínum vinnustað mikið.
„Á þessum vinnustað miðast launin við kjörin á almenna vinnumarkaðnum en ekki opinbera markaðnum. Í grunninn miðast launin við kjarasamninginn sem Sameyki gerir við Orkuveituna. Orkuveitan býður eftir að SA semji og þá hefst samtalið um kjarasamningana við Sameyki. Það er launamunur á milli launamarkaða, hann er augljós og hallar þar á opinbera launamarkaðinn. Opinberir starfsmenn gáfu eftir lífeyrisréttindi til að jafna launamuninn. Það hefur ekki skilað sér nógu hratt til baka. Einnig sér maður í starfi sínu fyrir stéttarfélagið oft á tíðum hvernig stofnanir og sveitarfélögin hafa viljandi eða óviljandi gengið á rétt launafólks með t.d. tímabundnum launaniðurskurði sem í sumum tilfellum skilar sér aldrei til baka, þá skiptir máli hvernig málin eru kynnt fyrir opinberum starfsmönnum. Starfsmatið hefur svo skilað, í sumum tilfellum, launahækkununum til baka en enn er langt í land að laun séu jöfn á milli markaða,“ segir hún.
Sameyki sterk heild
Þegar óskað var eftir því að Ingibjörg Sif tæki að sér varaformennsku Sameykis hugsaði hún sig vel um. Henni hugnaðist það ekki í fyrstu þegar hún leit á alla harðjaxlana í stéttarfélaginu þar sem henni leist betur á að þeir tækju að sér varaformennskuna.
„Fyrst sagði ég bara nei. Það eru aðrir reynslumeiri en ég í hópnum sem gætu sinnt þessu starfi betur en ég, og koma frá vinnustöðum sem eru í harðari stéttarfélagsbaráttu en ég þekki frá mínum vinnustað. En svo vega sum atriði þungt á móti, t.d. að ég kem sveitarfélagsmegin frá en Þórarinn Eyfjörð ríkismegin, svo er það einnig veigamikið að gætt sé að kynjahlutfallinu. Þannig endurspegla formaður og varaformaður ríkið og sveitarfélögin í Sameyki og síðan er líka verið að passa upp á að félagið endurspegli ákveðinn þverskurð félagsmanna Sameykis. Ég var ritari áður en nú varaformaður og það er gott að hafa þetta hlutverk og láta gott af sér leiða á þessum vettvangi,“ segir Ingibjörg Sif.
Henni líst mjög vel á framtíðina hjá Sameyki. Eftir sameininguna hafi félagið orðið sterkari heild, það er sýnilegra félagsmönnum og almenningi. Hlutverk þess er markvissara og það sem mikilvægast er; það er samningslega miklu sterkara.
„Störfin á skrifstofunni hafa líka breyst, starfsfólkið getur betur sinnt því sem það er sérhæft í og hleypur síður í óskyld verkefni, fólk þarf ekki lengur að vera sérfræðingar í öllu, og það gerir félagið sterkara. Mér finnst Þórarinn leiða starfið á skrifstofunni mjög vel. Hann hefur mjög mikla reynslu af kjaramálum almennt og er mikill reynslubolti sem þekkir viðsemjendur sína vel. Það er nauðsynlegt að hafa þessa reynslu sem hann hefur í svona stóru stéttarfélagi sem Sameyki er og ánægjulegt að vera með honum í þessu þó að lítið mæði á varaformanninum í þessu samhengi,“ segir hún.
Upplýsingin er mikilvæg
Þegar varaformaður Sameykis, Ingibjörg Sif, er spurð út í hvernig hún sjái framtíð stéttarfélagsins fyrir sér svarar hún því til að það þurfi bæði að sækja fram og standa vörð um þau réttindi sem þegar hafa náðst. Þá er nauðsynlegt að minnast réttindanna sem opnberir starfsmenn gáfu eftir svo jafna mætti laun á milli markaða.
„Unga fólkið okkar þarf að fræðast um réttindi sem þau eiga þegar þau fara út á vinnumarkaðinn. Sýnileiki stéttarfélaga skiptir þar miklu máli og unga fólkið þarf að fá vitneskju um hvernig réttindi launafólks eins og við þekkjum þau í dag náðust fram, að það var barátta fólksins sem á undan gekk sem skilaði okkur þeim réttindum sem við njótum í dag. Áfram heldur þó baráttan fyrir launafólk í landinu því nauðsynlegt er að verja þau réttindi sem þegar hafa náðst því það er ekki sjálfsagt mál í dag að þau haldist annars. Þekking almennings á stéttarfélögum mætti vera betri því stundum les fólk ekki einu sinni launaseðlana sína og þekkir ekki réttindi sín, eins og t.d. að sækja um styrki hjá stéttarfélaginu sínu eða veikinda- og orlofsrétt. Auka þarf fjármálalæsi ungs fólks og upplýsa það almennt séð.
Það þarf að verja réttindin svo þau tapist ekki
Að lokum, hvað segir Ingibjörg Sif um hvar skuli sækja fram í baráttu launafólks?
„Sko, við þurfum fyrst að verja það sem við höfum, félagið er alltaf á tánum við að verja fengin réttindi. Það er aðal baráttan, að missa ekki það sem þegar hefur áunnist og einnig er mjög brýnt að jafna laun á milli markaða og milli kynja. Fyrrum formaður Sameykis, Árni Stefán Jónsson, hefur staðið sig vel í því að halda áfram baráttunni um að jafna laun á milli markaða. Það þarf slíka baráttujaxla eins og hann og Þórarinn til að fylgja þessari baráttu eftir svo réttindi sem samið var um nái fram að ganga en tapist ekki. Sókn er besta vörnin!
Viðtalið birtist í tímariti Sameykis í desember 2021.