Syngjandi húsgagnasmiður

Deila

Það er alltaf gaman að heimsækja Þjóðleikhúsið. Að þessu sinni í þeim tilgangi að hitta Hildi Evlalíu Unnarsdóttur sem er teymisstjóri leikmyndaframleiðslu Þjóðleikhússins og trúnaðarmaður Sameykis á vinnustaðnum. Hún hefur starfað í leikhúsinu frá því 2016 og unir sér vel í starfinu sem er krefjandi, lifandi og skapandi. Blaðamanni lék forvitni á að vita deili á þessu fallega millinafni sem Hildur Evlalía ber.

„Nafnið er sjaldgæft og þýðir „sú sem talar fallega“ og er grískt að uppruna. Eiginnafnið mitt kemur úr norrænni goðafræði eins og fólk þekkir. Evlalíu nafnið er frekar algengt í Grikklandi,“ sagði Hildur Evlalía.

Þar sem fjalir leikhússins eru lagðar
Hildur Evlalía er menntuð sem klassískur söngvari og húsgagnasmiður og má því segja að hún hafi mýkt söngraddarinnar og skyn leikarans á umhverfinu, og svo útsjónarsemi og þrótt húsgagnasmiðsins. Hæfileikar sem nýtast eflaust vel í hennar starfi. „Það reynist alveg vel í þessu starfi að hafa í sér leiklistar element og svo aftur þessa praktísku hlið, að vera húsgagnasmiður,“ segir Hildur Evlalía og hlær.

Það má með sanni segja að fjalir leikhússins séu lagðar á smíðaverkstæðinu og gerðar af höndum leikmyndahönnuða og annarra þeirra sem búa til leikhúsið sjálft, Þjóðleikhúsið. Hildur segir að til að sinna sínu starfi vel þurfi hún að sýna útsjónarsemi, vera lausnamiðuð og oft á tíðum þurfi hún að vinna mjög hratt. Unnið er eftir tímamörkum sem miðast auðvitað við frumsýningardaginn. Og þá þarf allt að vera klárt.

„Starfið mitt felst aðallega í samskiptum við leikmyndahönnuði og í samstarfi við þá verður leiksviðið til í kringum leiksýninguna. Leikmyndahönnuðurnir skila af sér grunnhugmynd að leikmynd sem ég lýk svo við að teikna. Þannig hefst ferlið að nýrri leikmynd sem ég svo kem áfram í framleiðsluferli á smíðaverkstæði hússins; til málara, smiða, skúlptúrista og annarra sem að því koma að skapa nýja leikmynd. Við, teymið mitt og leikmyndahönnuðirnir finnum svo saman lausnir á ýmsum útfærslum og brellum sem oft þarf að útfæra nánar,“ útskýrir Hildur Evlalía.

Alltaf í startholunum
Hvernig hefur gengið að starfa í Þjóðleikhúsinu á þessum skrýtnu tímum faraldursins? „Við erum búin að vera að framleiða allan tímann í COVID-19 þrátt fyrir takmarkanir. Við þurftum alltaf að vera tilbúin að hefja sýningu, vera ávallt í startholunum, og svo þegar faraldurinn stöðvaði frumsýningar ítrekað, þá þurftum við að fara nýjar leiðir til að halda lífinu í húsinu. Sem betur fer er þjóðleikhússtjórinn, Magnús Geir Þórðarson, mjög metnaðarfullur í að finna leiðir til að tengjast fólkinu og í framhaldi af því varð til t.d. sýningin Ljóð fyrir þjóð. Uppsetningin var með einum áhorfenda sem kom í leikhúsið og lesið var upp ljóð. Þjóðin naut svo ljóðalestursins með þessum eina áhorfanda í gegnum Zúmmið. Það var rosalega skemmtilegt verk og var vel tekið af þjóðinni,“ segir Hildur Evlalía.

„Þjóðleikhúsið framleiddi eina heila sýningu í kóvid sem var Vertu úlfur. Hún gengur mjög vel og varð verðlaunasýning. Einnig vorum við með jólasýningu á tröppum leikhússins sem var skemmtileg og vel tekið. Þá vorum við með leikhúsbíl sem ók út um allt og sýndi. Þessi verkefni krefjast þess að búin sé utan um þau ákveðin umgjörð ásamt því að framleiða leikmyndir í stórum stíl. En annars, þá gat það verið erfitt að fara af stað með sýningu, og þegar allt var tilbúið var hrópað „KÖTT“ af sóttvarnaryfirvöldum. Þannig að við vorum oft að byrja upp á nýtt. Þetta var mjög krefjandi og það var mikilvægt að hugsa vel um starfsfólkið sitt og hvetja fólk áfram á þessum tíma. Núna vorum við að frumsýna Rómeó og Júlíu sem heppnaðist mjög vel og það er léttir að vera loksins farin af stað,“ segir hún.

Stytting vinnuvikunnar vel tekið
Hún segir að ákveðið hafi verið að fara í fulla styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu, um fjórar klukkustundir á viku.

„Við erum ekki alveg í venjulegri dagvinnu hérna. Vinnuskyldan sem starfsfólkið þarf að uppfylla er reiknuð einu sinni í mánuði, en það hefur ákveðið frelsi til að ráðstafa þessum klukkstundum, t.d. hvort það vinnur styttri vinnudag almennt frá átta til fjögur, eða tekur styttinguna einu sinni í viku og hættir þá einn dag á hádegi. Við eigum eftir að koma í gagnið almennilegu eftirliti með þessari styttingu hjá hverjum og einum starfsmanni, en það styttist í það því tekið verður upp nýtt vinnustundakerfi sem heitir Vinnustund. Þá losnum við við Bakvörðinn sem er ævafornt ógagnsætt ríkisbatterí,“ segir Hildur Evlalía og brosir.

Hildur Evlalía segir að þegar stytting vinnuvikunnar var kynnt varð fólk svolítið skelkað því það hélt að það fengi enga kaffitíma né matartíma. Það leiðréttist þegar útskýrt var að fólk myndi alls ekki tapa neysluhléunum sínum þótt það ráðstafaði ekki matartímanum til að sinna einkaerindum utan vinnunnar.

„Það tók smá tíma að útskýra þetta. Þegar fólk er að vinna í sýningum, þá er það hvort eð er ekki með forsjá yfir neysluhléinu sínu. Fólk er þá bara að fylgja æfingum og tekur sinn hálftíma í neysluhlé í hádeginu eins og verið hefur. Breytingin varð ekki eins mikil og fólk hélt. Breytingin varð til góðs fyrir okkur því það skapaðist meiri tími til að njóta einkalífs,“ sagði Hildur Evlalía að lokum.

Viðtöl og greinar

Fleiri greinar og viðtöl