Nauðsynlegt að Norðurlöndin standi saman

Deila

Í júní 2022 var haldin NTR-ráðstefna í Gautaborg þar sem saman voru komin stéttarfélög opinberra starfsmanna sveitarfélaga á Norðurlöndunum; Íslandi, Færeyjum, Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Umræðuefnið á ráðstefnunni var framtíðarvinnumarkaðurinn. Fjallað var um samþættan vinnumarkað (n. hybrid arbeidsmarked).

Norrænt samstarf mikilvægt
Knut Roger Andersen framkvæmdastjóri Vision stéttarfélags benti á að norrænt samstarf stéttarfélaganna væri mikilvægt því Norðurlöndin hefðu álíka samfélagsgerð og vilji landanna væri að standa vörð um og bæta velferðarsamfélagið. Sagði hann að í COVID-19 faraldrinum hefðu 470 þúsund opinberir starfsmenn á Norðurlöndunum haldið innviðum landanna gangandi. Þeir þjónuðu milljónum manna meðan á faraldrinum stóð. Þá sagði hann að Norðurlöndin samanlagt væru fimmta stærsta hagkerfi heimsins. Þá væri hafsvæði Norðurlandanna það þriðja stærsta í heimi. Norrænt samstarf væri því mjög mikilvægt í heildarmyndinni.

Óvissutímar
Knut Roger sagði að Norðurlöndin og veröldin öll stæðu nú frammi fyrir loftlagsvá og stríði hinum megin við bæjarlækinn. Nú væri líka stærsti flóttamannavandi síðan 2015 vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.

Knut Roger (fremst á mynd) sagði að Norðurlöndin og veröldin öll stæðu nú frammi fyrir loftlagsvá og stríði hinum megin við bæjarlækinn.

„Við sem störfum í stéttarfélögum þurfum að láta okkur þetta varða, það skiptir miklu máli að almenningur viti að öll stéttarfélögin innan NTR standa saman gegn innrás Rússlands í Úkraínu. Vegna innrásarinnar er norrænt samstarf áríðandi og sendir framkvæmdastjóri Nato, Jens Stoltenberg, fundargestum sínar bestu kveðjur með þeim orðum að samstarf Norðurlandanna sé mjög mikilvægt í heimsmyndinni. Stöndum saman, stöndum vörð og sköpum okkur þá velferð sem einkennt hefur Norðurlöndin,“ sagði Knut Roger.

Sveigjanlegri vinnumarkaður
Á ráðstefnunni var rætt um stafrænt vinnuumhverfi og hversu hratt það þurfti að þróast vegna heimsfaraldursins og hvað vinnustaðir þurftu að aðlagast þessum breytingum snögglega. Stafrænt fundakerfi ruddist inn á vinnumarkaðinn og er það sennilega komið til að vera. Sveitarfélögin skorti innviði til að mæta þessum breytingum og til að bregðast við breyttum vinnuaðferðum. Þá hefur faraldurinn hefur kennt vinnumarkaðnum líka að krafist er ákveðinnar endurmenntunar sem stjórnvöld verða að taka þátt í. Í framtíðinni verða vinnustaðirnir að taka þessum áskorunum um breyttan vinnumarkað og atvinnurekendur verða þess vegna að efla starfsfólk, hæfni þess og sveigjanleika. Sjá má að fólk hefur orðið skilvirkara með því að vinna fjarvinnu og kom það á óvart. Einnig komu samfélagsmiðlar sterkt inn til að miðla málum, þjónustu og þátttöku við félagsfólk stéttarfélaganna. 

Þátttakendur í pallborðsumræðum. Ljósm/Axel Jón

Faraldurinn sýndi þó einnig fram á sveigjanleika vinnumarkaðarins þegar þess er krafist. Að eiga kost á að vinna heima er líka verkfæri til nýliðunar á vinnumarkaðnum. Mikilvægt er að líta eftir því hvernig notað er hugtakið – að vinna heima. Í því sambandi er ekki talað um heimavinnudaga, heldur er talað um mætingardaga yfir þá daga sem starfsfólk er á vinnustaðnum. Þetta hefur því snúist við. Þessar breytingar eru áskoranir en hvað þetta þýðir fyrir vinnustaðina og vinnumarkaðinn í heild sinni á eftir að koma betur í ljós í framtíðinni. Tilraunir með tvíþætta eða samþætta vinnu á Norðurlöndunum; heimavinnu og vinnu á vinnustaðnum, hafa víðast hvar gengið ágætlega.

Kostir og gallar samþætts vinnumarkaðar
Að vinna heima hefur fært starfsfólki meira frelsi hvernig það hagar sínum vinnutíma, og einnig er ánægja með að fjölskyldulífið virðist eflast. Samkvæmt rannsóknum sem stéttarfélögin gerðu kom í ljós að andleg líðan og heilsa versnaði ekki með tvíþættum vinnuaðferðum eins og talið var vegna faraldursins.

Hins vegar er sá galli við samþættan vinnumarkað að flæði í störfum breytist þegar ekki er starfsfólk á vinnustaðnum og eins rofna tengsl á milli starfsfólks og hætta er á að vinnustaðurinn breytist og verði tómlegur. Þá er norrænn vinnumarkaður best til þess fallinn að vera samþættur vegna líkinda vinnumarkaðarins á milli landanna og styðja þarf við starfsfólk sem vill vinna heima.

Annað sem vinnumarkaðurinn stendur frammi fyrir er hvernig haldið er á félagslegum auði í sambandi við fjarvinnu. Samspil og mótun fjarvinnu, framleiðni og vellíðan er rannsóknarefni fyrir framtíðarvinnumarkaðinn en komið hefur í ljós að margt starfsfólk vill vinna þrjá daga á vinnustaðnum og tvo daga heima á norrænum vinnumarkaði.

Viðtöl og greinar

Fleiri greinar og viðtöl