Árni Stefán Jónsson hefur starfað að réttinda- og kjaramálum opinberra starfsmanna frá árinu 1986. Frá 1990 starfaði hann fyrst sem framkvæmdastjóri SFR. Seinna, eða frá árinu 2006, starfaði hann sem formaður þess félags allt þar til hann tók við formennsku Sameykis þegar Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og SFR sameinuðust í Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu árið 2019. Árni er menntaður rafvirki frá Iðnskólanum í Reykjavík en síðar lærði hann tómstunda- og frítímafræði og uppeldis- og félagsfræði í Háskólanum í Gautaborg. Árni Stefán er fæddur og uppalinn á Raufarhöfn þar sem faðir hans átti og stjórnaði síldarsöltun og reyndar víðar, á Seyðisfirði og Vopnafirði líka. Í æsku breyttist sú áætlun að hann yrði síldarkóngur eins og faðir hans þegar síldin fór. Hann flutti til Reykjavíkur, settist á skólabekk í Laugalækjarskóla þar sem leiðir hans og Garðars Hilmarssonar lágu fyrst saman, en Garðar hættir nú líka sem varaformaður Sameykis. Árni Stefán er giftur Helgu Ingibergsdóttur og saman eiga þau tvær dætur, Sunnu og Söndru, og tvö barnabörn.
Úr rafvirkjun í fjölskyldu- og uppeldisráðgjöf
En hvað stendur upp úr í stéttarfélagsbaráttu Árna Stefáns?
„Ég fór fljótlega að skipta mér af félagsmálum upp úr 1970 þegar ég var að læra rafvirkjun. Ég varð formaður Félags nema í rafvirkjun, svo varaformaður Iðnnemasambandsins og síðar skólastjóri Félagsmálaskóla Iðnnemasambandsins. Á þessum tíma var mikill baráttuandi í iðnnemum fyrir bættum kjörum. Ég tók þátt í þessu og má segja að þarna hófst sá mikli áhugi sem ég hef haft af félagsmálum sem endaði með því að ég fór í félags- og tómstundanám, í tvö ár til að byrja með og síðar útskrifaðist ég sem félags- og uppeldisfræðingur. Hluti námsefnsins fjallaði um hvernig á að stofna og reka frjáls félagasamtök sem ég hef getað nýtt mér allar götur síðan. Þegar ég kom heim eftir nám hóf ég störf hjá Unglingaheimilinu og þá gerðist ég trúnaðarmaður. Í stuttu máli sagt þá lá leiðin þaðan inn í stéttarfélagsmálin og SFR.
Ég tók þátt í að gera fyrsta kjarasamning SFR 1987 eftir að lögunum var breytt þannig að samningsrétturinn færðist frá BSRB yfir á stéttarfélögin. Ég held ég geti fullyrt að ég hef verið með í gerð allra samninga SFR og Sameykis við ríkið síðan þá. Sumt hefur tekist mjög vel, annað ekki eins vel, á því ber ég ábyrgð,“ segir Árni Stefán.
Stofnanasamningarnir bylting
„Þegar ég lít til baka þá finnst mér margt hafa áunnist. Kjör opinberra starfsmanna, kjör félagsmanna SFR og síðar Sameykis hafa batnað verulega með tilliti til annarra á launamarkaðnum, þó að launin hafi batnað líka á almenna markaðnum. Stærsta breytingin var 1998 með stofnanasamningunum. Það var bylting í launamynduninni. Þá var ekki gerður einn miðlægur samningur fyrir alla heldur samið við hverja stofnun fyrir sig um launin. Umræða í þjóðfélaginu, innan stéttarfélaganna og hjá ríkinu þá, snerist um að kerfið sem launþegar bjuggu við væri ekki nægilega sveigjanlegt. Þáverandi fjámálaráðherra Friðrik Sophusson, embættismenn og samningamenn ríkisins opnuðu fyrir breytingar á launakerfi opinberra starfsmanna. Við gripum þetta á lofti og hófumst handa við gerð þessara samninga sem var bylting í launaþróun á Íslandi.
Þetta gamla ósveigjanlega launakerfi sem farið var í að breyta var þannig að í kjarasamningnum var nánast bara samið um að ákveðið starf skyldi vera í ákveðnum launaflokki og því varð ekki haggað. Svo fraus það þar á meðan laun á almenna markaðnum þróuðust. Þannig var engin launaþróun hjá ríkinu að heitið gæti. Svo var byrjað að búa til hliðarkerfi í óunnum yfirvinnutímum vegna þess að launamaður færðist ekki úr launaflokki. Þetta var komið í mikið óefni og auðvelt að mismuna út frá þessu kerfi. Það var alltaf keppikefli ríkisins að halda grunninum niðri og hífa svo upp launin með þessum hætti. Svo varð þessi breyting, eiginlega bylting eins og ég sagði áðan, að stofnanasamningarnir voru gerðir. Þegar ég lít til baka finnst mér að við séum á réttri leið þó að ýmsir hafi gagnrýnt þessar breytingar. Launaþróun á sér frekar stað í þessari gerð samninga heldur en í einum bundnum heildarsamningi.“
Langar vaktir fara illa með heilsu fólks
Jafnstór breyting eða bylting er að eiga sér stað núna má segja. Það er stytting vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki og vaktavinnufólki. Þessir samningar voru gríðarlega erfiðir, skrýtnir og flóknir. Svo lagðist heimsfaraldurinn yfir. Mikil vinna á sér stað í kringum þessar breytingar, eða þessar kerfisbreytingar má segja. Það er þetta sem eru stóru breytingarnar finnst mér, gerð stofnanasamninga og stytting vinnuvikunnar. Styttingin á sennilega eftir að breyta lífi launafólks mikið. Hugsaðu þér að fá að hætta á hádegi einu sinni í viku eða fá einn frídag aðra hverja viku? Þetta er mikil kerfisbylting.“
En hver er kjarninn í kerfisbreytingunum hjá vaktavinnufólki?
„Kjarninn í breytingunum hjá vaktavinnufólki er sá að hækka starfshlutfallið hjá þeim sem hafa verið að vinna erfiðustu vaktirnar. Það er erfitt að standa 12 tíma vaktir, við sjáum að þetta fólk er í sjötíu eða áttatíu prósenta starfshlutfalli. Með þessari kerfisbreytingu er ætlunin að hækka starfshlutfallið hjá þeim sem vinna þessar löngu erfiðu vaktir, þ.e. starfsfólkið vinnur svipaðan tímafjölda sem verður metinn sem hærra starfshlutfall. Og með hækkuðu starfshlutfalli aukast réttindin. Það er mikil kjarabót að vinna áttatíu prósent starf en fá fyrir það nánast hundrað prósent laun. Launin batna, lífeyrisrétturinn eykst og aðrar afleiður er bætt heilsa og meiri frítími til að njóta. Þá er mikilvægt að setja upp vaktirnar á vinnustöðunum eftir þessu nýja kerfi sem við nefnum vaktahvata. Vaktahvatinn er frekar hugsaður gegn þessum einhæfu löngu vöktum sem við sjáum að fer ótrúlega illa með heilsu fólks. Við hjá Sameyki hvetjum til átta tíma vakta og viljum helst útrýma þessum tólf tíma vöktum,“ segir Árni Stefán.
Stéttarfélag er fyrir félaga þess en ekki öfugt
„Ég er líka ánægður með þá viðhorfsbreytingu sem orðin er til stéttarfélaga en ég hef alltaf haldið því fram alls staðar að stéttarfélag er fyrir félagsmennina en ekki öfugt. Þegar ég hóf afskipti af kjara- og réttindamálum var viðhorfið það að félagsmenn væru fyrir stéttarfélagið. Þetta fannst mér vitleysa því störf innan stéttarfélaga eru fyrir félagsfólkið. Við erum að vinna fyrir það. Við erum að berjast fyrir réttindum þess. Þetta er þjónustustarf því við þjónum félögum Sameykis. Það er leiðarljósið í starfi Sameykis. Þess vegna er nauðsynlegt að innan stéttarfélags sé þekking sem nýtist félagsfólkinu. Til þess var Fræðslusetrið Starfsmennt stofnað upphaflega, eða til að bjóða stuðningsfulltrúum námskeið, og þróaðist það svo í þá viðamiklu þjónustu sem það veitir félagsmönnum Sameykis í dag með níu starfsmönnum. Þar er gott fólk starfandi.“
Önnur þjónusta sem Sameyki veitir félagsmönnum sínum er í sambandi við sjóðina sem er mjög mikilvæg þjónusta. Sjóðirnir eru réttur félagsmanna til að sækja sér styrki, endurmenntun og þekkingu. Um þessa auknu þjónustu er samið um í gerð kjarasamninga þar sem samið er um greiðslur vinnuveitenda í sjóðina; styrktar- og sjúkrasjóð, starfsmenntunarsjóð, orlofssjóð, þróunar- og símenntunarsjóð, mannauðssjóð trúnaðarmanna, svona svo ég nefni þá helstu. Þessar greiðslur höfum við venjulega samið um í lok kjarasamninganna. Ekki er um það að ræða að þessir peningar komi úr launaumslagi launafólks, eða að þeir geti farið í að hækka laun félaganna, það er samið um þessar greiðslur í sjóðina aukreitis. Þess vegna höfum við getað byggt upp þessa sjóði með peningum atvinnurekenda. Félagar okkar á Norðurlöndunum horfa til þessarar uppbyggingu sjóða með öfundaraugum. Þá sýna kannanir að áttatíu prósent félaga okkar eru ánægðir með þjónustu Sameykis og ég er mjög glaður með það. Það er af sem áður var. Viðhorfið hefur breytst frá því í gamla daga þegar ég fékk símtöl frá reiðum félögum sem voru ekki sáttir. Við þurfum að halda áfram að efla starfsemina, halda samtalinu áfram við félagsmenn og auka þjónustu Sameykis.
Stærðin veitir völd
Þegar Sameyki var stofnað var ég viss um að sameiningin væri mikið heillaskref fyrir bæði Starfsmannafélag Reykjavíkur og SFR. Ég hef alltaf verið þeirra skoðunar að stéttarfélagseiningarnar í landinu séu of litlar til að hafa þau áhrif sem félagar þeirra ætlast til af þeim. SFR var of lítil eining til að hafa áhrif þó að í því væru fimm þúsund félagar. Sameinað félag hefur mun meiri völd og áhrif heldur en stéttarfélag sem er minna getur nokkrun tíma tíma haft. Ég hef alltaf haldið því fram að einingarnar þurfi að vera stórar til að hafa áhrif. Það er mikið lán og öllum til framdráttar að búa til stóra einingu því stærðin veitir völd og áhrif til að ná fram kjarabótum. Samtakamátturinn hefur eflst og kjölfestan er meiri fyrir Sameyki innan heildarsamtaka BSRB. Það reyndi strax á þetta í upphafi árs 2020 þegar verkfall var samþykkt. Þá fundum við að stærð félagsins hafði mikil áhrif en svo kom COVID-19 og hætta þurfti við ýmis áform.“
Árangur og þakklæti
En hvers mun Árni Stefán sakna helst úr sínum störfum fyrir Sameyki?
„Ég mun helst sakna atsins. Ég hef ætíð haft mikla ánægju af störfum mínum fyrir launafólk og hef fundið að ég hef notið trausts í þeim hlutverkum sem ég hef tekið að mér í þeirra málum. Aldrei hef ég verið þreyttur í mínum störfum, aldrei. Ég hef verið víða starfandi innan hreyfingarinnar og verkefnin hafa verið fjölmörg og fjölbreytt. Það voru ekki margar helgar lausar fyrir fjölskylduna oft á tíðum. Það er líka alltaf svo gaman þegar maður finnur að maður nær árangri, hvort sem um er að ræða stóra samninga, eða fyrir einstakling sem þarf aðstoð með sín mál. Ég er þakklátur fyrir þetta allt og það gleður mig þegar fólk nær árangri líka. Svo má segja að ég fái kraft út úr því að vinna fyrir annað fólk. Við höfum ekki verið, né erum ekki verkkvíðinn hjá Sameyki. Það sem tekur nú við er að njóta hestamennskunnar meira en ég hef gert áður. Svo eru ferðalög með konunni minni fyrirhuguð. Hún hefur ferðast hingað og þangað til staða sem ég hef ekki farið til. Síðan mun ég líka njóta meiri tíma með fjölskyldunni, börnum og barnabörnum en ég hef gert áður. Þetta verður bara gaman,“ segir Árni Stefán að lokum.