Mikilvægt fræðslusetur

Deila

Fræðslusetrið Starfsmennt náði þeim áfanga að verða 20 ára á síðasta ári. Á þessum 20 árum hefur fræðslusetrið þjónað mikilvægum tilgangi í að fræða og mennta opinbera starfsmenn stofnana ríkisins og sveitarfélaga. Starfsmennt var stofnað árið 2001 og er samstarfsvettvangur fjármála- og efnahagsráðuneytis og flestra aðildarfélaga BSRB um starfstengt nám, starfsþróun og ráðgjöf á sviði mannauðseflingar. Það er gleðiefni að Reykjavíkurborg er núna í ársbyrjun 2022 að koma sem fullgildur aðili að Starfsmennt, en um það var samið í síðustu kjarasamningum.

Mikilvæg náms- og fræðslustofnun

Ávallt hefur markmið Starfsmenntar verið að bjóða opinberum starfsmönnum víðtæka möguleika til menntunar og þroska, og aðstoða stjórnendur við mótun vinnustaðamenningar og starfsumhverfis sem miðar að því að auka ánægju og hvatningu meðal starfsmanna. Þá hefur Starfsmennt unnið að því að vera leiðandi starfsmenntunar- og ráðgjafamiðstöð og verið eftirsóknarverður samstarfsaðili í viðleitni opinberra stofnana til að efla fagmennsku og færni meðal starfsmanna ásamt því að skapa uppbyggilegt og hvetjandi vinnuumhverfi. 

Allt nám og ráðgjöf fræðslusetursins hefur verið stofnunum og starfsmönnum ríkisins að kostnaðarlausu fyrir félagsmenn í aðildarfélögum Starfsmenntar. Ennfremur byggist reksturinn á því að gerðir eru samstarfssamningar við aðra fjölbreytta fræðslu- og starfsmenntarsjóði til að fleiri hópar geti nýtt sér þjónustuna. 

Viðurkennd gæðavottuð þjónusta

Þjónusta Starfsmenntar á sviði fræðslu, náms- og starfsráðgjafar og raunfærnimats hefur hlotið EQM gæðavottun, sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins veitir. Starfsmennt hefur einnig hlotið viðurkenningu Menntamálastofnunar sem viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili skv. lögum um framhaldsfræðslu nr. 27/2010. Á þessum mikilvæga grunni hefur Starfsmennt getað boðið upp á fræðslu og menntun á faglegum grunni sem nýtist þeim aðilum til þess að byggja upp mikilvæga og góða þekkingu og færni meðal starfsfólks.

Leiðin til aukinnar menntunar

Mikilvægi fræðslu og menntunar dylst engum stjórnanda sem upplýstur er um mikilvægi og hæfni starfsfólks sem sinnir fjölbreyttum þjónustustörfum hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga. Starfmennt leggur áherslu á sérsniðin námskeið og námsleiðir í samræmi við fræðsluþörf, stefnu og framtíðarsýn stofnana. Leiðin þangað er vörðuð með þeim hætti að hver stofnun fær sína gátt þar sem finna má lista yfir námskeið og starfsfólk skráir sig í gegnum sína stofnanagátt. Þessi leið að hanna fyrir stofnanir sértæk námskeið og námsleiðir hefur reynst vel þeim fjölmörgu sem hafa nýtt sér hana. Leiðin til góðs árangurs í störfum starfsfólks og þjónustu stofnana ríkis og sveitarfélaga er að viðhalda og auka við þekkingu starfsmanna. Með þeim hætti dýpkar þekking og hæfni á sviði þverfaglegrar þekkingar fyrir viðkomandi og tryggir betri þjónustu við viðskiptavini stofnana. Fræðslusetrið Starfsmennt leggur metnað sinn í að stuðla að slíkri framþróun.

Raunfærnimat Starfsmenntar

Það er staðreynd að maðurinn lærir svo lengi sem hann lifir. Starfsmennt býður einnig upp á fjölbreytta einstaklingsþjónustu. Raunfærnimat er mikilvægur þáttur í að meta hæfni og raunfærni starfsfólks þó það hafi ekki lokið formlegu námi í því sem það starfar við. Markmið raunfærnimatsins er að gera hæfni og færni sýnilega og ekki síst viðurkennda með því að meta og staðfesta að hún sé fyrir hendi. Aðferðin við raunfærnimat sem oftast er notuð er sú að miða við námsskrár af framhaldsskólastigi en einnig í sumum tilfellum er metið á móti ákveðnum störfum. Þannig fæst sú reynsla metin til eininga og gilda þær einingar til styttingar náms sem staðfestir þekkingu og hæfni. Gerðar eru kröfur til þeirra sem koma í raunfærnimat um að þeir hafi reynslu í þeim störfum sem eru metin og starfsmenn þurfa að uppfylla viðmið um líf- og starfsaldur. Lágmarksaldur þeirra sem koma í raunfærnimat er 23 ár og staðfesta þarf þriggja ára reynslu í því fagi sem metið er. Raunfærnimatið tekur um tvo til þrjá mánuði og er þeim að kostnaðarlausu sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi. Raunfærnimatið hefur mikla þýðingu fyrir framtíð fólks á vinnumarkaðnum og hefur verið hvatning fyrir fólk að hefja nám að nýju og verið þannig virk leið til starfsþróunar.

Fjölbreytt fræðsla nauðsynleg

Hjá Starfsmennt geta félagar sem eiga aðild sótt sér mjög fjölbreytta fræðslu í formi námskeiða sem eins og gefur að skilja er til heilla fyrir vinnumarkaðinn og má þar nefna námskeið um betri vinnutíma í vaktavinnu, fjármál og rekstur, opinbera stjórnsýslu, sjálfstyrkingu og samskipti, stafræna hæfni, stjórnun og forystu og þjónustu svo eitthvað sé nefnt. Fleiri fræðslunámskeið eru í boði en Starfsmennt er í stöðugri endurskoðun á aukinni fræðslu sem á erindi til að auka þekkingu stofnana og einstaklinga.

Umsagnir stjórnenda þeirra stofnana sem Sameyki spurði álits og nýtt hafa sér þjónustu Fræðslusetursins Starfsmenntar eru á einu máli um hversu stór þáttur Starfsmenntar í þróun og menntun starfsfólks hefur verið hjá þeim starfsmönnum sem nýtt hafa sér þá þekkingu og þjónustu sem það býður upp á. Tveir af þeim stjórnendum er Gerður Pétursdóttir fræðslustjóri hjá Isavia sem segir fyrirtækið hafi nýtt sér fjölbreytta þjónustu fræðsluseturins með góðum árangri og Vilmar Pétursson, mannauðsstjóri hjá Vinnumálastofnun, sem segir stofnunina hafa nýtt sér ráðgjöf og þjónustu fræðslusetursins með góðum árangri. 

Viðtöl og greinar

Fleiri greinar og viðtöl