Kjaratölfræðinefnd gaf út haustskýrslu sína í desember síðastliðnum. Nefndin er samstarfsnefnd ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka á vinnumarkaði um tölfræði vegna kjarasamningsgerðar. Fulltrúar í henni koma frá ríki og sveitarfélögum, Samtökum atvinnulífsins og Hagstofu Íslands annars vegar og bandalögum launafólks hins vegar; ASÍ, BHM, BSRB og KÍ. Tilgangur skýrslunnar er að fyrir liggi áreiðanlegar upplýsingar og sameiginlegur skilningur aðila um laun og efnahag sem nýtast við undirbúning og eftirfylgni kjarasamninga á hverjum tíma. Ríkissáttasemjari hýsir nefndina og leggur til fundar- og starfsaðstöðu. Nefndin fjallar um gögn sem liggja til grundvallar kjarasamningagerð á hverjum tíma og eru grundvöllur fyrir launamyndun á vinnumarkaði.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur hjá BSRB, kynnti efni skýrslunnar nú í janúar fyrir starfsfólki stéttarfélaganna innan bandalagsins:
„Í skýrslu Kjaratölfræðinefndar um efnahagsmál kemur fram að kaupmáttur hefur aukist og skuldir sem hlutfall af eignum hafa minnkað. Á fyrri helmingi ársins 2023 hefur kaupmáttur rýrnað, þ.e. ráðstöfunartekjur heimilanna hafa dregist saman. Það skýrist fyrst og fremst af hækkun vaxtagjalda. Óraunhæft er að ná kaupmætti til baka eingöngu með kauphækkunum, meira þarf að koma til, m.a. lægri vextir og minni verðbólga. Reikna má með að greiðslubyrði heimilanna vegna húsnæðislána muni að óbreyttu hækka,“ sagði Sigríður Ingibjörg.
Hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði hefur aldrei verið meira en nú
Heildarfjöldi starfandi dróst saman við upphaf heimsfaraldursins, en jókst á ný frá ársbyrjun 2021. Mest var tólf mánaða aukning á fjölda starfandi um 10 prósent. Í sögulegu samhengi er það mikil fjölgun og þó að dregið hafi úr fjölgar fólki á vinnumarkaði enn nokkuð hratt. Megnið af fjölgun starfandi síðustu tvö árin skýrist með erlendu starfsfólki. Hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði er nú það mesta nokkru sinni. Rekja má 60 prósent af fjölgun starfandi frá 2019 til innflytjenda. Fjölgun starfandi á síðasta ári var mest á meðal fólks í einkennandi greinum ferðaþjónustu. Starfandi í þeim atvinnugreinum fjölgaði um 27 prósent frá 2021 til 2022 á sama tíma og heildarfjöldi starfandi á vinnumarkaði jókst um 7 prósent.
Fjöldi opinberra starfsmanna sambærilegur síðustu áratugina
Mestu sveiflur hafa verið í fjölda starfandi í ferðaþjónustu síðustu árin í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Störfum fækkaði töluvert árið 2020 en fjölgaði svo talsvert árið 2022 og fyrri hluta 2023, eða um samtals 10 þúsund. Hjá hinu opinbera hefur fjölgun starfandi verið nokkuð stöðug síðustu árin. Frá 2019 hefur störfum hjá hinu opinbera fjölgað um samtals 7 þúsund. Hið opinbera er hér skilgreint sem atvinnugreinarnar opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónusta en hluti atvinnurekstrar í þessum greinum er þó í höndum einkaaðila. Hlutur opinberra starfsmanna á vinnumarkaði, það sem af er árinu 2023, er sambærilegur því sem verið hefur síðustu áratugi miðað við fjölda starfandi.
Mikil verðbólga, minni kaupmáttur á mann
Í skýrslunni segir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi lítið breyst milli áranna 2021 og 2022. Þrátt fyrir að laun á mann hafi samkvæmt tekjuskiptingaruppgjöri ársins 2022 aukist um 13 prósent leiddu verðhækkanir og hækkanir á vaxtagjöldum heimila til þess að kaupmáttur minnkaði lítillega. Á fyrri helmingi þessa árs dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna saman um 2,7 prósent miðað við fyrri helming 2022. Laun á mann hækkuðu um 8,6 prósent á fyrri helmingi 2023 en á móti var mikil verðbólga þannig að kaupmáttur á mann minnkaði. Í fyrra var kaupmáttur launa óbreyttur á milli ára og á fyrstu þremur ársfjórðungum fyrri helmings 2023 jókst kaupmáttur launavísitölunnar um 0,8%. Aðrir þættir vógu á móti og ollu því að kaupmáttur ráðstöfunartekna minnkaði á fyrri hluta ársins. Miðað við nýjustu hagspá Hagstofu Íslands má búast við að verðlag hækki um ríflega 2 prósent á seinni hluta 2023. Því kann kaupmáttur ráðstöfunartekna að minnka enn meira. Síðustu ár jukust eignir og tekjur heimilanna umfram skuldir. Sú þróun var áfram árið 2022 þegar raunvirði fasteigna jókst og skulda minnkaði.
Mikil greiðslubyrði húsnæðislána eykst
Í skýrslunni kemur fram að hlutfall heimila með mikla greiðslubyrði af húsnæðislánum jókst frá 2020 og er útlit fyrir áframhaldandi aukningu. Þegar litið er til húsnæðislána sem veitt voru frá 2020 voru um 4,5 prósent heimila með greiðslubyrði umfram 40 prósent í upphafi lánstíma. Miðað við raunverulega greiðslubyrði í júlí 2023 og uppfærðar tekjur er hlutfallið orðið tæp 9 prósent. Það eru einkum heimili með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum sem verða fyrir aukinni greiðslubyrði. Af óverðtryggðum íbúðalánum til heimilanna er tæplega helmingur á breytilegum vöxtum. Því er útlit fyrir að hlutfall heimila með háa greiðslubyrði muni að óbreyttu hækka. Ef vextir óverðtryggðra íbúðalána með fasta vexti myndu við vaxtaendurskoðun hækka í þá breytilegu vexti sem bjóðast nú, myndi hlutfall heimila með greiðslubyrði umfram 40 prósent hækka úr 9 prósentum í 20 prósent.
Ársverðbólga minnkar en verðlag hækkar
Ársverðbólgan minnkaði úr 10,2 prósentum í febrúar á síðasta ári í 7,6 prósent þegar lægst var í júlí. Það er mesta verðbólga síðan 2009. Í nóvember spáði Seðlabanki Íslands að verðbólga myndi minnka hægt á næstu misserum. Samkvæmt spánni fer verðbólga undir 5 prósent í lok árs 2024. Seðlabankinn spáir hægari lækkun á verðbólgu samanborið við spána frá í ágúst, m.a. vegna þess að spennan í þjóðarbúinu reyndist meiri en áður var talið og gengi krónunnar hefur veikst. Enn varar Seðlabankinn þó við því að hætta sé á að verðbólga verði meiri en spá bankans gerir ráð fyrir.
Þegar litið er til undirliða verðbólgunnar má einkum rekja lækkun á verðbólgu síðasta árið til minni hækkana á húsnæði og lækkunar bensínverðs. Dregið hefur úr framlagi húsnæðisverðs til verðbólgunnar enda dró úr hækkun húsnæðisverðs á síðustu tólf mánuðum. Á móti komu áhrif vegna hækkana á innfluttum vörum, þjónustu og ýmsum öðrum liðum.
Í skýrslu Kjaratölfræðinefndar eru gnótt upplýsinga m.a. um efnahagsmál, vinnumarkaðinn, fjárhagsstöðu heimilanna í landinu, atvinnugreinarnar og umgjörð kjarasamninga á Íslandi. Hægt er að lesa og kynna sér efni skýrslunnar á vef Kjaratölfræðinefndar, ktn.is
Heimildir:
Kjaratölfræðinefnd. (2023). Kjaratölfræði: Haustskýrsla 2023.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. (2023, janúar). Kynning á skýrslu Kjaratölfræðinefndar [erindi á fundi].