Ég heiti Axel Jón Ellenarson og bý ásamt fjölskyldu minni í Fellahverfi í Efra-Breiðholti. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í næstu borgarstjórnarkosningum í 3-5 sæti fyrir Samfylkinguna vegna þess að ég vil standa vörð um hverfið okkar og framtíð þess. Uppruni minn og reynsla úr lífinu hefur kennt mér mikilvægi þess að gott samfélag þarf að byggja á sanngirni, tillitssemi við vilja íbúanna, aðgengi þeirra að góðri þjónustu og virðingu fyrir fólki og umhverfi.
Breiðholtið á að vera sterkt og lifandi hverfi en ekki svæði þar sem stórar iðnaðarbyggingar og illa ígrundað skipulag ryðja út grænum svæðum og lífsgæðum þeirra sem í hverfinu búa. Ég vil ekki sjá frekari uppbyggingu á stóru iðnaðarhúsnæði sem á ekki heima í Breiðholti líkt og „græna skrímslið“ sem þegar hefur verið reist. Við eigum að vernda og fegra Breiðholtið og stuðla að lifandi umhverfi með aukinni verslun og þjónustu í kjörnum hverfanna í Breiðholti. Ég vil beita mér fyrir beinnar þátttöku íbúanna í ákvarðanatöku og tryggja að borgaryfirvöld hlusti og fylgi eftir vilja þeirra.
Reykvíkingar hafa lengi lýst óánægju með hvernig borgin tekst á við skipulags- og samgöngumál, þar sem margir telja að skorti á heildarsýn hafi leitt til hnignunar í þjónustu, aukins umferðarálags og ágangi á viðkvæm útivistarsvæði. Mikilvægt er að vernda hinn svokallaða græna kraga sem umlykur Reykjavík, svæði sem borgarbúar njóta daglega til útivistar, náttúruupplifunar og hvíldar og ég vil ekki að byggðin þenjist lengra út í þá átt. Á sama tíma þarf að leysa alvarlegt álag á stofnbrautum borgarinnar, sem eru orðnar óboðlegar í núverandi mynd. Sundabraut er þar lykilverkefni, framtíðar samgönguæð sem mun létta á umferð í Reykjavík, styrkja tengingar við höfuðborgarsvæðið og verður sífellt mikilvægari þegar uppbygging þéttist í Úlfarsádal og í Keldnalandi. Með því að verja græna kragann og ráðast í nauðsynlega húsnæðisuppbyggingu er hægt að bæta bæði lífsgæði og sjálfbærni borgarinnar til framtíðar.
Mínar helstu áherslur eru:
Skipulagsmál, útivistarsvæði og framtíð þróunar borgarinnar
- Vernd græna kragans: Mikilvægt er að stöðva útþenslu byggðar inn í náttúruleg útivistarsvæði í kringum Reykjavík, þar sem þessi svæði gegna lykilhlutverki fyrir lífsgæði borgarbúa.
- Heildarsýn fyrir framtíðaruppbyggingu: Þétting byggðar þarf að vera markviss og byggð á innviðum sem styðja daglegt líf íbúanna, ekki á kostnað náttúru, útivistarmöguleika eða gæðum eldri hverfa.
- Sundabraut sem lykillausn: Uppbygging Sundabrautar er nauðsynleg til að létta miklu álagi á stofnbrautum borgarinnar og verður enn mikilvægari þegar framtíðaruppbygging eykst norðar, þar á meðal í Úlfársárdal.
Leikskólar: aðgengi, mannekla og nútímavæðing
- Aðgengi og jöfnun byrða: Tryggja þarf að leikskólagjöld og tengdur kostnaður leggist ekki þungt á ungt fólk, einstæða foreldra eða fjölskyldur með lægri tekjur. Leikskóli á að vera raunhæfur kostur fyrir alla, óháð efnahag.
- Vernd og stuðningur við starfsfólk: Mikilvægt er að bregðast við álagi og undirmönnun í leikskólum með því að bæta starfskjör, auka stuðning og efla faglegt svigrúm starfsfólks til að tryggja bæði gæði kennslu og vellíðan í starfi.
- Viðhald og nútímaleg leikskólamannvirki: Leikskólarnir þurfa markvissa endurbótastefnu, þar sem viðhald er styrkt og húsnæði og búnaður færður til nútímahorfs í takt við þarfir barna, fjölskyldna og starfsfólks.
Takmörkun á flugumferð og mengun frá Reykjavíkurflugvelli
- Draga þarf úr flugumferð yfir þéttbýli og vernda heilsu og lífsgæði íbúa.
- Ég vil beita mér gegn þeirri mengun sem rekstur flugvallarins skapar fyrir borgarbúa með því að styðja við framtíðalausnir sem draga úr jarðvegsmengun, hávaða, loftmengun og óþarfa flugi yfir borginni.
Öflug og sanngjörn húsnæðisuppbygging í Reykjavíkurborg
- Byggja fjölbreytt og hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fjölskyldur á nýjum svæðum.
- Leggja áherslu á fallega, manneskjulega uppbyggingu sem og efla eldri hverfi Reykjavíkurborgar og ekki þrengja að þeim enn frekar.
Verndun grænna svæða og bætt umhverfi í Breiðholti
- Vernda og stækka þarf græn svæði í Breiðholti, fegra þau og sinna þeim betur.
- Tryggja að útivist, gönguleiðir og leiksvæði verði hluti af hverfinu til frambúðar.
- Standa gegn frekari iðnaðaruppbyggingu í íbúðahverfum og í jaðri þeirra.
Sterkara, fjölbreytt og fjölþjóðlegt menningarlíf í Breiðholti
- Efla menningarstarf, hverfahátíðir og listsköpun í öllum hlutum Breiðholts.
- Styðja fjölbreyttan samfélagsgrunn sem endurspeglar fjölþjóðlegt Breiðholt.
- Búa til rými og stuðning fyrir ungt fólk, menningarviðburði og samfélagsmiðstöðvar í hverfunum.
Betri þjónusta og öflugra mannlíf í Breiðholti
- Auka þjónustu við íbúa: frístundir, félagsstarf, leikskóla, heilsugæslu og samgöngur.
- Efla aðstöðu fyrir börn, ungmenni og eldri borgara.
- Að Breiðholtið sé hverfi þar sem fólk vill setjast að og vill búa þar áfram.
- Lögð verði áhersla á að fegra Mjóddina og efla þar aðgengi, verslun og þjónustu.
Ég bið um stuðning ykkar í næstu borgarstjórnarkosningum svo við getum saman gert Breiðholtið að grænu, sterku og manneskjulegu hverfi til framtíðar.
Með Samfylkingarkveðju,
Axel Jón Ellenarson