Hafna löggjöf ESB um lögbundin lágmarkslaun

Deila

Ráðstefna NSO (The Nordic Council of Civil Servant Unions) var í Halden í Noregi í lok ágúst 2022. Á ráðstefnunni hittust formenn og starfsfólk stéttarfélaga á Norðurlöndunum; Íslandi, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Færeyjum og ræddu kjaramál, öryggismál vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, um framtíðarvinnumarkaðinn og velferð opinberra starfsmanna. Níu manna hópur úr stjórn Sameykis ásamt starfsmönnum sótti ráðstefnuna sem stóð yfir í þrjá daga.

Kristin Alsos, rannsóknarstjóri FAFO, sem er sjálfstæð norsk félagsvísindarannsóknarstofnun sem sérhæfir sig í vinnumarkaðsmálum og kjarasamningum, fjallaði um tilskipun ESB um lögbundin lágmarkslaun og hvers vegna Norðurlöndin eru á móti löggjöfinni.

Formenn stéttarfélaganna á Norðurlöndunum. Ljósm./Axel Jón

Á móti löggjöf um lágmarkslaun

„Ástæða þess að Norðurlöndin hafa ekki áhuga á að lögfesta tilskipun ESB um lágmarkslaun er sú að á Norðurlöndunum er samband milli vinnuveitenda og launafólks í gegnum aðild að stéttarfélögum og kjarasamningum sem þau gera. Fyrst er samið um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði sem svo opinberi vinnumarkaðurinn leggur út frá í sínum kjarasamningum. Vegna þessa m.a. þykir Norðurlöndunum þetta hvorki nauðsynleg né eftirsóknarverð löggjöf. Þá eru lágmarkslaun í löndum innan ESB mun lægri en á Norðurlöndunum, m.a. í löndum fyrrum Sovétríkjanna við Eystrasalt og sunnar í álfunni. Það er allt að 60 prósenta munur á lágmarkslaunum á Norðurlöndunum og öðrum löndum innan Evrópusambandsins og mörg lönd sem ná ekki þeim lágmarkslaunum innan ESB en þessi löggjöf mun eflaust koma þeim vel og því ættu öll lönd þar sem lágmarkslaun ná ekki tilskipun Evrópusambandsins að staðfesta þessa löggjöf. Auk þess var gagnrýnt að slíkar innleiðingar gætu eyðilagt vinnumarkaðinn og samband vinnuveitenda og launafólks. Einnig eru tryggð lágmarkslaun með kjarasamningum stéttarfélaga en tilskipanir ESB um lágmarkslaun myndu veikja stéttarfélagsvitund og baráttu launafólks fyrir betri kjörum,“ sagði Kristin Alsos.

Framlegðin kemur á óvart hjá þeim sem starfa heima

Mari Holm Ingelsrud, yfirrannsakandi við miðstöð velferðar- og vinnurannsókna við Háskólann í Osló, fjallaði í erindi sínu um rannsóknir síns teymis um framtíðarvinnumarkaðinn: 

„18 prósent fólks störfuðu almennt heima hjá sér fyrir COVID-19 faraldurinn, en meðan á honum stóð fjölgaði þeim upp í 60 prósent. Eftir að faraldrinum lauk fór hlutfallið í 50 prósent sem störfuðu heima allan daginn hluta vinnuvikunnar. Í rannsókninni kemur fram að 72 prósent launafólks vilja starfa heima allan daginn hluta vinnuvikunnar og við höldum að þetta sé komið til að vera, en samt ekki í eins miklum mæli og meðan á farsóttinni stóð. Þá vill fólk hafa vinnustað sem það getur farið til og greinilegt er að margar stéttir vilja geta ráðið sjálfar hvernig þær sinna vinnunni með tilliti til viðveru á vinnustaðnum. Stofnunin hefur komist að því að fólk sem starfar heima metur vinnuframlagið sitt minna en ef það væri á vinnustaðnum. Þetta kemur á óvart því framlegðin fellur ekki þegar fólk starfar heima hjá sér eins og það heldur fram eða fær á tilfinninguna. Reynsla vinnuveitenda í Noregi er sú að framleiðni þeirra sem störfuðu heima jókst í farsóttinni,“ sagði Mari Holm.

Heimavinna getur haft slæmar félagslegar afleiðingar

Heimavinna getur haft slæm áhrif félagslega því nálægð við vinnustaðinn er minni, nándin við starfsfélaga er ekki til staðar og lengri boðleiðir eru á milli stjórnenda og starfsfólksins.

„Fólk er óöruggt hvenær það á að vinna á heimaskrifstofunni en þróunin hefur verið sú á opinbera vinnumarkaðnum að 30 prósent eru með samninga sem kveða á um aðskilnað vinnu og einkalífs. Það er bæði jákvætt og skilvirkt að vera með heimaskrifstofu og hjá þeim sem eru með slíka aðstöðu er framleiðnin meiri eins og áður kom fram. Þetta fyrirkomulag skapar þó líka ójöfnuð sem verkalýðsfélög verða að takast á við því sum störf krefjast þess af fólki að það sé alltaf á vinnustaðnum og það þarf að leysa úr því með einhverjum hætti,“ sagði Mari Holm.

Rússar bjóða fría opinbera þjónustu og vodka

Oksana Huz Blanc og Ivanna Khrapko, ungir fulltrúar stéttarfélaga opinberra starfsmanna í Úkraínu, ræddu ástandið í sínu stríðshrjáða landi og þau áhrif sem árásir Rússa hafa haft á innviði þess. Þá sögðu þær frá hvernig sjálfboðastarf ungs fólks í verkalýðshreyfingunni fer fram í Úkraínu. Oksana skýrði frá því að Rússar segðu við fólkið sem starfar á herteknum svæðum í Kherson „að þau séu nú hluti af Rússneska sambandinu og séu nú félagar í rússneskum verkalýðsfélögum. Ótti við ógnir Rússa heldur því föngnu og óvissan hjá fólkinu er auðvitað mikil líka.“

„Rússar bjóða fólki hærri laun en það hafði áður, bjóða fría opinbera þjónustu, leikskóla o.þ.h. og meira að segja bjóða fólki frítt vodka. Aðferðin er augljóslega gerð til að veikja mótstöðuna og gera fólk móttækilegt fyrir áróðri þeirra að yfirtaka bæði fólkið og landið. Hermenn Rússa hafa t.d. farið með starfsfólk, líka almenning, í kjarnorkuverið í Zaporizhzhia og þvingað það þar til að halda því fram opinberlega að það sé dásamlegt að vinna fyrir Rússland. Þá nota þeir kjarnorkuverið sem vopn í stríðinu og ógna þannig Úkraínu og Evrópu og herir Úkraínu eiga þess vegna erfitt með að verjast. Þarna er mjög mikil hætta á ferð. Rússar hafa líka tekið úr sambandi kjarnaofn sem sá Úkraínu fyrir rafmagni. Við vonum að alþjóðasamfélagið grípi í taumana og hjálpi Úkraínu að verja kjarnorkuverið,“ sagði Oksana Huz að lokum

Viðtöl og greinar

Fleiri greinar og viðtöl