Þegar ég var ungur drengur, fyrir um 45 árum síðan eða svo, sátum við pabbi tveir einir við kvöldverðarborðið heima á Kleppsveginum. Þetta var að hausti og Viðeyjarsund og Esjan með hvíta toppa blasti við í fjarska út um eldhúsgluggann. Pabbi leit upp, benti út á sundið þar sem hvítir öldutoppar í haustkuldanum léku sér, og sagði: „Sjáðu drengur minn, þarna synti ég stundum yfir í Viðey þegar ég var unglingur,“ og rak svo gaffalinn í óskrælda kartöflu sem hann stakk upp í sig með hamsatólg og ýsu.
Það var fáheyrt að fólk styngi sér til Viðeyjarsunds á þessum árum en það kom þó fyrir að menn syntu út í sker og eyjar til að sinna brýnum verkefnum – eins og að huga að búpeningi sem þar kann að hafa verið. Núorðið er sjósund í tísku. Það er nú mikið sport að synda í Norður-Atlantshafinu. Fólk gerir það vegna heilsubótar og með hratt aukinni iðkun sjóbaða hefur verið byggð upp aðstaða fyrir þetta sport víðs vegar um landið. Fólk getur komið og dýft tánum í Atlantshafið og farið rakleitt í heita laug á eftir. Þar með er þó ekki öll sagan sögð því sjósund getur verið háskaleikur ef ekki er farið varlega af stað og líkamanum leyft að aðlagast miklum kulda sjávarins við strendur Íslands.
Fara þarf varlega því sjórinn er hættulegur
Í útvarpi allra landsmanna heyrði ég á dögunum í tengslum við málþing hjá Fræðslunefnd NLFÍ áhugavert viðtal við sjósundgarpinn Ernu Héðinsdóttir, sem er lýðheilsufræðingur, kennari, næringarfræðingur og með próf í jákvæðri sálfræði. Hún hefur stundað sjósund sér til heilsueflingar frá árinu 2017, fyrst um sinn vegna þess að hún var orðin ráðalaus hvernig hún gæti bætt heilsu sína vegna streitu og kulnunar, auk vefjagigtar og fylgikvilla hennar. Í viðtalinu sagði Erna að nauðsynlegt væri að gæta fyllsta öryggis þegar farið væri í sjósund; nota sérstakar sjósundhettur, sundbaujur sem fólk syndir með og mætti líkja við þegar sett er á sig öryggisbelti í bíl, sjósundskó og hanska. Þá ætti fólk aldrei að synda langt í sjónum einsamalt. Þá þarf að gæta vel að hitastigi sjávarins og þegar það er komið niður fyrir 5 gráðu hita er venjulega talað um sjóböð en ekki sjósund.
Erna sagði að fólk sem færi í fyrsta sinn í sjóbað eða sjósund þyrfti að passa sig á að vera ekki lengur í köldum sjónum en að hámarki fimm mínútur. Líkaminn getur ofkælst og þá getur fólk örmagnast. Hún sagði að best væri fyrir áhugasama um sjósund sem heilsubót að fara á námskeið í sjósundi þar sem farið er yfir öryggisreglur og aðlögun, „því sjórinn er hættulegur og fólk þarf að bera virðingu fyrir honum, best er að byrja rólega,“ sagði Erna.
Kostir sjóbaða og sjósunds
Erna sagði að sjórinn hafi gefið henni nýtt líf. „Ég var mjög veik manneskja á árinu 2014 til 2017. Ég var með krónískan hausverk í næstum því tvö ár sem fylgdu mígreniköst tvisvar til þrisvar í viku.“ Hún lýsti því að sjóböð og sjósund hefðu bjargað lífi sínu og nú heldur hún vinsæl sjósundnámskeið.
Kostir þess að iðka sjósund nefndi Erna aukna vellíðan sem það skapar, aukna orku, dregur mikið úr streitu og bólgur í líkamanum hjaðna, æðakerfið styrkist og æðakölkun minnkar, blóðþrýstingur verður jafnari yfir lengri tíma litið, húðin verður heilbrigðari, líkaminn brennir meiri orku og dregur úr fitusöfnun. Hægt er að kynna sér sjósund og sjóböð á vef NFLÍ.