Ljósmyndir

Hér er brot af þeim ljósmyndum sem ég hef tekið fyrir dagblöð, tímarit og vefi. Hér má skoða söguljósmyndir, viðtalsljósmyndir, portrett og stúdíóljósmyndir teknar fyrir stök verkefni. Ég hef einnig starfað sem myndritstjóri og blaðaljósmyndari á fjölmiðlum, þá hefur stúdíóljósmyndun einnig verið hluti af starfi mínu.

Söguljósmyndir

 

Café D”Haítí – Lítið sjarmerandi kaffihús

Elda Þórisson Faurelien á og rekur Café D”Haítí með manni sínum Methúsalem Þórissyni. Þau hjónin flytja sjálf inn kaffibaunirnar frá Haítí en þær eru brenndar á staðnum til að viðhalda ferskleika. Kaffiunnendur  koma við á hverjum degi til að hitta Eldu og kaupa sér tíu dropa áður en þeir halda út í daginn. Sumir koma tvisvar á dag.

Flosi Ólafsson heimsóttur

Ég heimsótti Flosa Ólafsson og konu hans, Lilju Margeirsdóttur, þar sem þau bjuggu að Bergi í Reykholtsdal til að taka viðtal við hann um hestamennskuna. Þau tóku mér vel og við ræddum um ævilanga ástríðu hans fyrir hestamennskunni, hrossarækt, alnafna hans og barnabarn sem hann er svo stoltur af og auðvitað bjargið og ástina í lífi leikarans, Lilju konu hans. Ég kvaddi þau með dýrmætar frásagnir í farteskinu og þakklátur að hafa fengið að kynnast manninum betur.

Mæja á Bæjarins Bestu

Ég og Magnús Halldórsson, blaðamaður, heimsóttum Mæju á Bæjarins Beztu þar sem hún sagði okkur frá lífinu í pylsuvagninum, bæði daglegum störfum og óvæntum uppákomum sem fylgja því að standa á einum frægasta pylsustandi landsins. Ég tók ljósmyndir á meðan hún afgreiddi gesti með sinni kunnuglegu hlýju. „Eina með öllu,“ sagði einn viðskiptavinur meðan annar bað um eina pyslu með báðum laukum en „engar sósur.“ Mæja rifjaði upp fyrir okkur stundina þegar Bill Clinton gekk að vagninum og hún kallaði til hans hvort hann vildi eina heita. „Hann pantaði sér eina með sinnepi sem síðar varð þekkt sem „Clinton-pylsan“ og atvikið setti bæði vagninn og Mæju í kastljós fjölmiðlanna um allan heim. Saman drógum við Maggi upp lifandi mynd af stemningunni og þeim litríku augnablikum sem hafa gert Bæjarins Beztu að goðsögn íslensku pylsunnar í Reykjavík.

 

Stúdíó Sýrland

Við Magnús Halldórsson, blaðamaður, heimsóttum Stúdíó Sýrland og tókum í kjúða og slógum á strengi svona til að tékka á stemningunni. Hún var góð og maggi skrifaði skemmtilega grein um lífið í Stúdeó Sýrland dagspart.

Ríkisráðsfundur á Bessastöðum í september 2010

Fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur tók formlega til starfa 1. febrúar 2009 í kjölfar þess að stjórnin á undan, ríkisstjórn Geirs H. Haarde, sagði af sér vegna fjármálakreppunnar. Hérna má sjá ríkisráðsfundinn sem haldinn var 2. september 2010. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, kom til fundarins á Bessastöðum á forláta grænum Volvo sem er úr fjölskyldu eiginkonu hans.

Hálendisferð að vetri

Farið var frá Reykjavík í Dalakofa í Reykjadölum, í jaðri Torfajökulssvæðisins að Fjallabaki.  Ekið var þaðan upp í Hrafntinnusker þar sem stoppað var og drukkið heitt kakó. Þá var haldið áfram ferðinni og stoppað til að líta yfir til Landmannalauga. Þaðan var ekið var um Brennisteinsöldu upp Pokahrygg með viðkomu við Krakatind og áfram um rætur Heklu á leið til baka. Óhapp varð þegar jeppi ók um mishæðótt landslag (vúpsa) og missti ökumaður stjórn á jeppanum með þeim afleiðingum að hann valt. Engin slys urðu á fólki og allt fór vel.

Laufskálaréttir

Stemningin fönguð í stóðréttum. Mikill fjöldi heimsækir Laufskálaréttir í Hjaltadal að hausti hvers árs til að fylgjast með hrossastóði sem rekið er af fjöllum þar sem þau eru á beit um sumarmánuðina.

Ferð að vetri inn á Hveravelli

Við lögðum af stað, Baldvin Jónsson, leiðsögumaður, og yðar einlægur frá Geysi í Haukatungi inn á Hveravelli eitt síðdegi í svarta myrkri um hávetur og komum þangað um tíuleytið um kvöldið. Pétur Gíslason, staðarhaldari, tók á móti okkur með góðum kvöldmat. Daginn eftir ókum við um þetta mikla vetrarríki á Kili, ég festi rútuna hans Badda sem kom mér til hjálpar og losaði ferlíkið úr festunni af ótrúlegri ró og lagni. Ég tók myndir. Síðar um daginn héldum við norður í Húnavatnssýslu yfir glitrandi hjarnbreiður. Góðir dagar á fjöllum.

Heimsókn í Brugghúsið Borg

Við Hallgrímur Oddsson, blaðamaður, heimsóttum Sturlaug Jón Björnsson, bruggmeistara Borgar. „Hann hefur starfað við bruggun i um tíu ár en hann lærði fagið í Bandaríkjunum. Mikið var um að vera hjá Sturlaugi Jóni þegar blaðamaður og ljósmyndari Viðskiptablaðsins komu í heimsókn.“

Skóvinnustofa Hafþórs

„Ég er búinn að vera í þessu í 50 ár og þetta fer að verða gott,” segir Hafþór skósmiður í kjallaranum í Garðastræti sem sett hefur skóvinnustofu sína á sölu, eina þá þekktustu í höfuðborginni og þá sérstæðustu.

Hestamennska

Hestakonan, tamingamaðurinn og hrossaræktandinn, Ragnheiður Samúelsdóttur, var heimsótti upp í Víðidal þar sem hún hefur aðstöðu til að temja hross og þegar okkur bar að garði var hún að fara í útreiðartúr með dóttur sinni Bergþóru Hörpu Stefánsdóttur.

Blaðamannafundir

VIÐTALSljósMYNDIR

Portrett

hitt & þetta, hingað & þangað

Vöruljósmyndir