Niðurskurður er í erfðamengi kapítalismans

Deila

Eftir Axel Jón Ellenarson
Ljósmyndir: Anton Brink

Clara E. Mattei er lektor við The New School for Social Research í New York. Verk hennar beinast aðallega að skörun á sviðum stjórnmála, hagfræði, sagnfræði og félagslegra kenninga. Mattei er þekkt fyrir rannsóknir sínar á efnahags- og stjórnmálalegum áhrifum niðurskurðar, sérstaklega í sögulegu samhengi. Rannsóknir Clöru miða að því að skilja hvernig efnahagsstefna, eins og niðurskurðaraðgerðir, hafa áhrif á uppbyggingu félagslegra þátta samfélagsins og valdajafnvægis í stjórnmálum.

Vakið hefur athygli innan hagfræðinnar greining hennar á tengslum niðurskurðarstefnunnar og þróunar kapítalískra lýðræðisríkja. Þar heldur hún því fram að niðurskurður sé ekki aðeins fjármálastefna heldur einnig verkfæri stjórnmálanna til að viðhalda tilteknum félagslegum eiginleikum – félagslegum tökum og aga.

Bók Mattei, The Capital Order: How Economists Invented Austerity and Paved the Way to Fascism (2022), fjallar um uppruna niðurskurðar í byrjun 20. aldar og þar er hlutverk hans skoðað í uppgangi einræðisstjórna, sérstaklega í Evrópu. Verk Clöru E. Mattei eru staðsett á mörkum hagfræðikenninga, stjórnmálasögu og heimspeki. Hún gagnrýnir iðulega hefðbundnar hagfræðikenningar með sýn sinni á afleiðingar niðurskurðar á jöfnuð og lýðræði.

Clara heimsótti blaðamann á skrifstofu Sameykis á hlaupum sínum milli funda og viðtala við fjölmiðla í Reykjavík daginn eftir málþing VR og spjallaði um kenningar sínar.

Niðurskurður safn örhagfræðilegra aðferða
Í bók þinni fjallar þú um skipun fjármagnsins. Þar ræðir þú hvernig niðurskurður er ekki aðeins efnahagslegt tæki heldur líka pólitískt. Getur þú útskýrt nánar hvað þú átt við og hvernig niðurskurðarstefna stjórnvalda mótar samfélagið?

„Niðurskurður sýnir mjög greinilega að það er engin sjálfvirkni á svokölluðum mörkuðum, heldur hvernig ríki og kapítalísk kerfi móta samfélagið á virkan hátt með þeim hætti að það er í raun aðeins hagstætt fyrir fjármagnseigendur en skaðlegt fyrir launafólk og almenning. Besta leiðin til að ná þessu fram er einmitt með fjársvelti og niðurskurði, því að niðurskurður er nokkurs konar safn örhagfræðilegra aðferða eða stefnu sem beinlínis færa auðlindirnar frá vinnandi fólki, sem er í meirihluta, til fjármagnseigenda sem eru í minnihluta.

Þetta er framkvæmt með stefnum eins og fjársveltistefnu (e. fisco-austerety) eða niðurskurði í útgjöldum til samfélagslegra þátta eins og heilbrigðiskerfis og menntakerfis, húsnæðis og viðhalds innviða. Á sama tíma dregur dregur ríkið úr áhættu fyrir einkafyrirtæki og stórfyrirtæki og fjármagnar framgang þeirra. Ríkið veitir líka miklu fé í alls kyns samkeppni á mörkuðum, eins og í tæknigeirum og í græna hagkerfinu. Enn fremur rennur mikið fjármagn frá ríkinu til einkafjárfesta. Þá bitnar hörð skattlagning í miklum mæli meira á launafólki en þeim sem lifa af fjármagnstekjum eða uppsöfnuðu fjármagni. Í niðurskurðarkerfum eru aðeins fá skattþrep, lítil framsækni, auknir neysluskattar, mjög lágir erfðaskattar, mjög lágir fyrirtækjaskattar o.s.frv.

Vandi samfélagsins – lausnir kapítalisma
Vaxtahækkanir koma svo fram, þannig að þeir sem hafa peninga geta grætt meira með því að lána þá til fólksins sem verður að taka lán með háum vöxtum til að komast af eins og er að raungerast núna. Þetta bitnar mest á fólki sem er með hærri húsnæðislán og hærri kreditkortaskuldir. Í þessu kapítalíska kerfi missir fólk vinnuna þegar hagkerfið hægir á sér. Ég tek fram að ég veit að hér á landi er mjög hátt atvinnustig, en áhrif vaxtahækkana leiða á endanum til enn meiri samdráttar og uppsagna á vinnumarkaði, hagfræðingar vita þetta vel. Samdráttur þýðir að fólk missir vinnuna, og aftur, þetta er dæmigert fyrir kapítalísk kerfi. Það sem við teljum vera vandamál er atvinnuleysi, óstöðugleiki og fátækt, en þetta kapítalíska kerfi lítur á það sem lausnir til að viðhalda kerfinu því meira atvinnuleysi þýðir meiri aga á launafólki. Síðan höfum við iðnaðarniðurskurðinn, einkavæðingu, afregluvæðingu vinnuréttinda, árásir á stéttarfélög o.s.frv.,“ segir Clara og lemur fingrum í borðið til að leggja áherslu á orð sín.

Svo er það kapítalísk skipan sem er öll fyrir einkavæðingu á þjóðarauðlindum?
– Já!
 Engar undantekningar?
– Nei!, segir Clara ákveðin á svip.

Fyrrverandi ríkisskattstjóri hér á landi, Indriði H. Þorláksson, hefur bent á í greinaflokki um skattasniðgöngu þeirra sem nýta sjávarauðlindirnar, að milljarðar íslenskra króna eru fluttir til aflandsfélaga á meðan stjórnmálin líta undan. Eru þetta einfaldlega venjulegir viðskiptahættir kapítalismans?

„Já,“ segir Clara og bætir við: „Og þetta er raunveruleg mæling sem sýnir þér að þegar niðurskurður á sér stað snýst allt um að safna auðlindum á fáar hendur. Þú sérð t.d. staðreyndirnar hér á landi í eftirfarandi dæmi: 0,1 prósent Íslendinga, sem samanstanda af 242 fjölskyldum, juku eignir sínar um 28 milljarða króna frá 2022 til loka 2023. Augljóslega er mest af þessu fengið með nýtingu náttúruauðlinda og er um að ræða náttúrulegt einokunarkerfi. Ef þú ræður yfir þessum tegundum auðlinda þá er mjög auðvelt að sækja meira fé – innkomu“ (sjá Ríkasta 0,1 prósent landsmanna eignaðist 28 nýja milljarða í fyrra eftir Þórð Snæ Júlíusson, fyrrv. ritstjóra Heimildarinnar).

Að aflýðræðisvæða efnahaginn er að aflýðræðisvæða samfélagið
Það eru mörg dæmi um það og þekkt í sögunni, bæði hér á landi og erlendis, þegar pólitískar stefnur kapítalismans koma inn í kerfi grasrótarhreyfinga eins og stéttarfélög og reyna að brjóta þau niður innan frá og taka þau yfir. Ættu grasrótarhreyfingar að vera á varðbergi fyrir pólitískum stefnum kapítalisma og niðurskurðar sem vinna að því að taka yfir stjórn ríkja og t.d. stéttarfélaga til að ryðja leiðina áfram fyrir kapítalískt stjórnkerfi?

„Þetta er góður punktur og ég held að hann sé nauðsynlegt að ræða. Í einföldum heimi skoðanaskipta fólks höfum við tilhneigingu til að halda að það sé eigindlegur munur á fasisma og frjálslyndum þingræðisríkjum, en þegar bent er á niðurskurðinn kemur í ljós að það er miklu meiri samfella þar á milli en við höldum. Svarið er já. Grasrótarhreyfingar þurfa að vera vakandi. Staðreyndin er sú að hagkerfið okkar, kapítalisminn, kýs minna lýðræði. Þannig að leiðin til að aflýðræðisvæða efnahaginn er að aflýðræðisvæða samfélagið, grasrótarhreyfingar fólks, ekki síst verkalýðsfélög sem tala röddum launafólks. Þannig virkar kapítalíska kerfið þegar efnahagslífið er ekki lýðræðislegt. Maður hugsar til þeirrar staðreyndar að fjármagnið verður til vegna virðisaukningar frá vinnuaflinu, ekki öfugt. Síðan versnar þetta þegar örhagfræðistefnur [innsk. blm.: Örhagfræðistefnur vísa til aðgerða og stefnu stjórnvalda sem miða að því að hafa áhrif á tiltekna geira, atvinnugreinar eða markaði innan hagkerfisins. Ólíkt þjóðhagfræðistefnum, sem fjalla um hagkerfið í heild (eins og verðbólgu, atvinnuleysi og hagvöxt) einbeita örhagfræðistefnur sér að einstökum þáttum hagkerfisins, eins og fyrirtækjum, neytendum og vinnumarkaði] þurfa að vera ólýðræðislegar, annars myndi fólk trufla fjármagnssöfnunina ef um lýðræðislegar stefnur væri að ræða. En eins og þú veist, þú getur náð fram þessari sömu niðurskurðarstefnu með harðari stefnu sem þá er kölluð fasísk en hefur sömu afleiðingar fyrir fólk; pólitískt ofbeldi, fangelsanir stjórnarandstöðunnar, bann við verkföllum og að banna stéttarfélög.

Að þessu sögðu er annað heilt litróf af aðferðum til ná fram fasískri stefnu. Þú getur gert þetta með því að stofna sjálfstæðan seðlabanka, setja jafnvægi fjárlaga í stefnuskrá og skapa fleiri leiðir, eins og þú bendir á, til að brjóta niður andstöðu. Ég myndi segja að þetta séu leiðir til að aflýðræðisvæða hagkerfið og þær eru allar mjög vel virkar til varðveislu kapítalíska kerfisins,“ segir Clara og brosir.

Niðurskurðarstefnunni beitt í skjóli frjálslyndis
Í bók þinni heldurðu því fram að niðurskurður sé miðlægur í kapítalíska kerfinu. Hvernig tengjast núverandi andrök þessari kenningu sem þú heldur fram um niðurskurð?

„Já, þetta er mikilvægt að ræða. Niðurskurður er stöðugt í virkni. Ég myndi halda því fram að niðurskurður sé varanlegur á öllum stigum kapítalismans og kapítalískra hagkerfa. Augnablikið þegar niðurskurðurinn kemur skýrast fram er þegar hann þarf að verja frjálslynd tengsl sem mest – að ekki megi skerða frelsi til athafna. Ég á við, þegar verkalýðsfélög vinnandi fólks eru betur skipulögð og krefjast réttindabóta er eftirfarandi alveg ljóst; því meira sem vinnumarkaðurinn hitnar, því hærri verða vextir og því meira eru ríkisútgjöld skorin niður til að hafa aga á launafólki. Málið er sögulega séð þannig, að þegar kröfur um efnahagslegt lýðræði verða háværari, er niðurskurðarstefna rétta vopnið til að þagga niður í kröfunum. Almennt er niðurskurður að miklum hluta innleiddur með örhagfræðistefnum sem eru reknar undir merkjum kapítalismans. Það er mjög áhugavert að í löndum eins og Íslandi er heilbrigðiskerfið betra en víða annars staðar, vegna þess að launafólk hefur alltaf barist gegn rökfræði niðurskurðarkapítalismans um niðurskurð til þess kerfis. Kapítalískt kerfi finnur sér þá samt venjulega aðrar leiðir til að fénýta almenning í heilbrigðiskerfinu í gegnum einkavæðingu.

Til að draga þetta saman, þá er niðurskurður í erfðamengi (DNA) kapítalismans, og þegar hann er ekki virkur er það vegna pólitískrar andstöðu sem kemur frá fólkinu sjálfu. Stéttarfélög og grasrótarhreyfingar eru öflug leið til að mótmæla rökfræði niðurskurðarstefnunnar sem annars myndi ráða ríkjum.“

Launafólk taki á sig launalækkanir til að bjarga hagvextinum
Þú segir í bók þinni að grundvöllur niðurskurðarstefnunnar sé sá að launafólk þurfi að sætta sig við launalækkanir til að bjarga hagvexti. Er þetta ekki áróður?

„Ég held að spurningin um efnahagsvöxt sé ekki endilega rétta spurningin sem fólk ætti að spyrja sjálft sig. Efnahagsvöxtur hylur hvernig auði er dreift og hvernig hann er í rauninni framleiddur. Þú getur sagt að hagkerfið vaxi, en undanfarið höfum við séð efnahagsvöxt sem ekki bætir á neinn hátt lífsskilyrði fólks. Við getum ekki gengið út frá því sem vísu að efnahagsvöxtur þýði endilega að lífskjör fólks batni, alls ekki. Reyndar höfum við nýlega séð aðskilnað efnahagsvaxtar frá framförum í ójöfnuði og kerfisbundinni fátækt.

Ég myndi segja, að undir kapítalisma er stór hluti þess hvernig einkafjárfestar halda áfram að fjárfesta, og á vissan hátt stuðla að fjármagnssöfnun í gegnum launalækkanir. Síðan hefur kerfið tilhneigingu til að lækka launakostnað. Það er gert annaðhvort með því að auka kröfur um framleiðni, sérstaklega í opinbera þjónustugeiranum þar sem lausnirnar eru kröfur um aukið vinnuálag, lengri vinnudaga eða að þrýsta kerfisbundið niður laununum. Allt eru þetta mismunandi leiðir til að auka arðrán vinnandi fólks í kapítalískri skipan. Þetta er auðvitað það sem Marx sagði okkur mjög skýrt um hvernig arðrán á launafólki virkar í kapítalisma, sem mun sannarlega aldrei leiða til góðs, hvorki fyrir kapítalismann né vinnandi fólk.

Því er meginboðskapurinn sá að kapítalismi virkar ekki fyrir fólkið. Það er mjög áhugavert að velferðarkerfin hafa ekki orðið til fyrir þökk kapítalismans, heldur þrátt fyrir hann, sem þýðir að það hefur verið barist fyrir þeim innan hins pólitíska kerfis.“

Þurfum að skilja að efnahagslífið er pólitískt
En er þetta töpuð barátta nú þegar kapítalíska kerfið virðist hafa yfirtekið það pólitíska?

„Já, sko, ég held að það séu röng skilaboð, að ef við hættum að trúa klassískum hagfræðingum sem koma til að segja okkur að hagkerfið sé hlutlægt fyrirbæri með sitt sjálfstæða svið, sé aðskilið frá stjórnmálum og eilíft, þá erum við að gangast við þeirri gölluðu hugmyndafræði sem hún í rauninni er. Þegar við skiljum að efnahagslífið er pólitískt, skiljum við um leið að efnahagskerfið sem við búum við er í grunninn byggt upp af samfélaginu, að hagkerfið er við, að fólkið myndar hagkerfið og að launafólk er uppspretta verðmætanna. Þessi staðreynd er valdeflandi, þegar maður áttar sig á að kerfinu hefur verið stillt upp á þennan hátt. Án niðurskurðar myndi þetta kapítalíska kerfi hrynja vegna þess að fólk hefði meiri tíma og rými til að krefjast betri réttinda og íhuga aðra valkosti.

Ég ítreka, þetta eru valdeflandi skilaboð og alls ekki töpuð barátta fyrir almenning. Reyndar eru leiðtogarnir í þessu kapítalíska kerfi hræddir við að tapa þessari baráttu. Í þessu sambandi skipta tölur máli og þegar þú skoðar þá staðreynd að meirihluti íbúa heimsins er algjörlega kúgaður af kapítalísku kerfi og almenningur þarf að rísa upp og benda á að þetta sé hvorki náttúrulegt né heilagt kerfi, heldur bara tiltekið kerfi sem við erum í, þá getum við breytt því saman,“ segir Clara og steytir fram hnefann.

Markaðsháð hagkerfi þrengir það sem er mögulegt að gera
Að varðveita eða auka kaupmáttinn á sama tíma og t.d. framboð á íbúðarhúsnæði er aukið án þess að það kyndi undir verðbólgu virðist flókin jafnvægislist sem krefst samhæfingar í efnahagsstefnunni. Er það ekki einungis pólitískt úrlausnarefni?

„Jú einmitt, ég held að þú sért að benda á kjarna málsins, þar sem það eru svo margar minna augljósar leiðir [örhagfræðistefnur] til að sækja fjármagnið frá vinnandi stéttum sem standa undir þjóðarframleiðslunni. Að auka skattlagningu er ein þeirra og það eru stjórnmálin sem ákveða það. Það áhugaverða í þessu sem þú spyrð um er að húsnæðisverð ætti fræðilega að lækka vegna lögmáls um framboð og eftirspurn. En síðan er málið að hagkerfið okkar á í erfiðleikum þegar kaupmáttur fólks eykst, ekki satt? Þetta er bláköld staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við.

Annað þessu tengt. Það sem ég reyni að útskýra fyrir nemendum mínum er að það eru tilteknar pólitískar og efnahagslegar takmarkanir – pólitík og efnahagsmál fara alltaf saman – sem skilgreina það sem er mögulegt að framkvæma í kerfi kapítalismans. Til dæmis getur kapítalískt ríki ekki einfaldlega veitt öllum borgurum lágmarksframfærslu, ekki vegna þess að það sé ekki fjárhagslega mögulegt, heldur vegna þess að það myndi kollvarpa því hvernig við höfum byggt upp verðmætasköpun. Ef ríkið gefur öllum lágmarksframfærslu myndu tengsl launasambands og verðmætasköpunar hrynja, því fólk þyrfti ekki að vinna fyrir launum. Það eru því skýrar takmarkanir á hvað kapítalísk kerfi geta gert.

Á sama hátt fylgja því vandamál að auka kaupmátt undir kapítalisma því það gæti haft neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð. Ef innflutningur er of mikill getur gjaldmiðillinn fallið í verði, sem leiðir til aukinnar skuldsetningar, sérstaklega erlendra skulda. Þetta sýnir hvernig markaðsháð hagkerfi þrengir það sem er mögulegt að gera. Að þessu sögðu er samt hægt að hugsa þetta með öðrum hætti. Þú getur sett upp verðþök á hámarksverð eða forgangsraðað kaupmættinum. Þú getur líka innleitt fjármagnshöft, sem sögulega hafa gert mörgum löndum kleift að þróast með því að koma í veg fyrir að auðmenn flytji einfaldlega auð sinn úr landi. Það eru fjölmargar aðgerðir sem stjórnvöld gætu gripið til. Hins vegar myndu margar þessara aðgerða rekast á rökfræði eða skipulag núverandi efnahagskerfis, sem gæti leitt til pólitískra átaka. Þú getur samt fylgt þeim, vitandi að þú munt ögra því sem venjulega er talið framkvæmanlegt.

Það þýðir þó ekki að það sé ómögulegt – það þýðir einfaldlega að þú efast um grundvallaratriði hagkerfisins okkar með því að forgangsraða þörfum fram yfir hagnað. Þetta gæti leitt til nýrra efnahagslegra aðferða hvernig eigi að reka samfélagið á lýðræðislegri hátt. Vandinn við aðgerðir eins þessar er að þær gætu raskað hefðbundnum efnahagslegum forsendum, en eins og sagan sýnir voru slíkar aðgerðir framkvæmdar í seinni heimsstyrjöldinni, og þær stjórnmálavæddu efnahagskerfið. Fólk fór að spyrja dýpri grundvallarspurninga um stjórn efnahagsmála.

Fyrir valdakerfið er þetta hættulegt því það getur leitt til umfangsmeiri efnahagslegra kerfisbreytinga. Hins vegar, í ljósi þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir í dag, auknu ofbeldi um allan heim, sérstaklega í Palestínu, og einnig hvað varðar loftslagskrísuna, er mikilvægt að borgaralegt samfélag taki þátt í að krefjast nýrra leiða til að skipuleggja stjórn efnahagsmála og samfélagið í heild.

Þetta er ekki óhlutbundin hugsun eða óraunveruleiki – þetta eru raunveruleg og nauðsynleg áskorunarefni,“ segir Clara E. Mattei og rýkur út á næsta fund upp í Háskóla Íslands með Sameykishúfu á höfði.

Viðtalið birtist fyrst í Tímariti Sameykis.

Viðtöl og greinar

Fleiri greinar og viðtöl