Breytum Íslandi

Alþingiskosningar 2024

Mér var boðið að taka 15. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavik norður sem ég þáði. Ég er spenntur fyrir nýrri forystu í flokknum sem Kristrún Forstadóttir leiðir. Ég treysti því fólki vel til að endurreisa á ný með ábyrgum og heiðarlegum hætti velferðarsamfélagið á Íslandi sem með skipulögðum hætti hefur verið fjársvelt allt þetta kjörtímabil.

Ef Samfylkingin fær nægilega sterkt umboð til að leiða næstu ríkisstjórn verður um leið hafist handa við að skapa hér á landi samfélag byggt á hugsjónum um jöfnuð að norrænni fyrirmynd; að allt fólk sem býr hér á landi eigi jafna möguleika að afla sér menntunar, að fólk geti búið við húsnæðisöryggi, að fólk geti treyst því að fá örugga heilbrigðisþjónustu, að þjónusta við eldra fólk sé til staðar; endurreisa innviðina. Einnig að styrkjakerfin sem hafa verið fjársvellt með skipulögðum hætti verði bætt þannig þau nýtast ungu fólki sem eru að stofna fjölskyldur, einstæðu barnafólki og láglaunafólki.

Þetta er hægt með því að snúa af leið niðurskurðarstefnu stjórnvalda sem hlífa fjármagninu með skattaafsláttum og veita óheftan aðgang að dýrmætustu auðlindum Íslands. Milljarðar hafa verið fluttir úr landi úr auðlindum okkar í áratugi. Við horfumst í augu við arðrán auðlindanna. Þjóðin hefur þegið brauðmolana hingað til. Við verðum að krefjast breytinga á því hvernig efnahagsmálum er stjórnað hér á landi. Það er enginn ómöguleiki að breyta því. Ómöguleikinn felst í því að kjósa áfram þá flokka sem geta ekki haft stjórn á efnahagsmálum og ástunda niðurskurðarstefnu.

Ég hef starfað alla mín tíð sem launamaður og þekki það vel að þurfa að fara sparlega með þau laun sem ég ávinn mér. Ég hef aldrei fengið neitt upp í hendurnar og hef lært að með því að leggja mig allan fram í því sem ég tek mér fyrir hendur mun ég eiga möguleika, gera mitt allra besta og ekki síst fyrir annað fólk. Ég hef lifað samkvæmt því að mesta gæfan í lífinu er að get sett mig í spor annarra og haft umhyggju í hjartanu fyrir öðru fólki hvar sem það er statt í lífinu.

Ég starfa hjá stéttarfélagi í almannaþjónustu og hef öðlast innsæi í störf fólks í grunnþjónustunni og það hefur veitt mér dýrmæta reynslu. Ég hef starfað í sjálfboðavinnu fyrir Samfylkinguna síðan 2020 og tók sæti á lista í Alþingiskosningunum 2021. Ég sit í stjórn með öflugu fólki í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík og hef unnið sem meðritstjóri við mótun stefnu Samfylkingarinnar.

Nú er tækifæri til að breyta samfélaginu sem hefur verið skilið eftir á meðan fjármagnseigendur eignast landið, firðina, fiskinn, vatnið, orkuna, hafið og innviðina.

Axel Jón Ellenarson