Hún er formaður heilbrigðisritara og heitir Braghildur S. Little Matthíasdóttir og starfar sem heilbrigðisritari hjá LSH á sviði sem heitir sjúkra- og skjalaskrá. Braghildur er formaður Félags heilbrigðisritara sem er fagfélag heilbrigðisritara og var stofnað árið 2005 að frumkvæði Guðríðar Guðbjörnsdóttur. Við ætlum aðeins að kynnast formanni félagsins og forvitnast um ævi hennar og störf heilbrigðisritarans og áform félagsins.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem blaðamaður veltir fyrir sér nöfnum viðmælenda sinna. Braghildur, fallegt og sérstakt nafn sem vekur upp spurningar. Braghildur er sú eina sem heitir þessu nafni á Íslandi og er nafnið samansett af hjónum einum sem hétu Bragi og var læknir og konu hans Hildi. Þau voru í uppáhaldi hjá föðursystur hennar sem var hjúkrunarkona og starfaði með þeim, en hún fékk að ráða nafni Braghildar þegar kom að því að hún var skírð.
„Þessu var skutlað saman í eitt nafn. Ég þekkti þetta fólk ekki, bara söguna, en það er stundum erfitt að heita svona einstöku nafni, því er líka breytt í allskonar önnur nöfn. Ég var ekki sátt við það að heita þessu nafni þegar ég var yngri en er mjög sátt við nafnið mitt í dag. Það er bara gaman að heita þessu nafni í dag,“ segir Braghildur og bætir því við að hún hafi tekið upp nafnið Little eftir eiginmanni sínum Ásgrími Ara Little Jósefssyni en móðir hans og tengdamóðir hennar hét Ruth Little sem var frá Englandi.
„Ég kynntist henni þegar ég var átján ára þegar við Ari fórum að vera saman. Hún var yndisleg kona og var mér sem önnur móðir og því er mér kært að bera hennar nafn og börnin okkar hjóna bera það líka. Ég gat ekki fengið betri tengdaforeldra og við ræktum tengslin við England með því að heimsækja fjölskylduna þangað reglulega, þó að við höfum sleppt því í faraldrinum,“ segir Braghildur.
Framtíðin ráðin af Siggu Kling
Braghildur er frá Siglufirði þar sem hún ólst upp innan um fjöllin og hafið í stórum systkinahópi. Eftir grunnskólann fór hún á heimvistina á Eiðum og segir að það hafi heldur betur víkkað sjóndeildarhringinn að skipta um umhverfi sem var svo ólíkt æskulsóðunum á Siglufirði og kynnast nýju fólki. Ung fór hún út á vinnumarkaðinn og vann við hin ýmsu störf en svo kom hrunið 2007 og hún missti vinnuna.
„Í hruninu 2007 missti ég vinnuna og ekki var um auðugan garð að gresja í þeim efnum. Ég man eftir því að ég átti eitt sinn erindi út í bæ og rakst þá á spákonuna Siggu Kling sem var þar að draga spil og spá fyrir fólki. Ég man þetta eins og gerst hefði í gær. Hún dregur fyrir mig spil og segir, „Já, þú átt eftir að umturna starfsferlinum og það mun vera allt öðruvísi en þú átt að þekkja!“ Ég var nú hissa á þessum spádómi Siggu Kling vegna stöðunnar sem ég var í, en ég geymdi spilið og leit stundum á það. Svo gerist það 2008 að ég sá auglýst nám heilbrigðisritara í Fjölbraut í Ármúla og ákvað að sækja um og síðan hefur ekki verið aftur snúið. Ég er alveg viss um að þessi stutta stund með Siggu Kling hafi verið örlagastund því sannarlega var starfsferlinum umturnað,“ segir Braghildur og brosir.
Heilbrigðisritarar víða
Á sviði sjúkra- og skjalaskrá hjá LSH starfa aðallega heilbrigðisgagnafræðingar og er Braghildur hluti af fjögra manna teymi sem afhendir sjúkraskrár ýmsum stofnunum: Sjúkratryggingum Íslands, tryggingafélögum, Tryggingastofnun, lögfræðingum og einstaklingum.
„Annars er starf heilbrigðisritara mjög misjafnt, bara eftir því hvar þeir starfa, og eftir þeim stofnunum sem þeir starfa fyrir. Ég sjálf er mætt í vinnuna klukkan fimm að morgni alla daga. Mér finnst það mjög gott og gott að hafa slíkan sveigjanleika. Ég fer snemma að sofa á kvöldin og vakna snemma. Vinnudagurinn minn stendur í 7 klukkustundir og 12 mínútur og því lýkur mínum vinnudegi um hádegið alla daga. Varðandi námið þá er það á framhaldsskólastigi og er 120 eininga nám. Slíkt nám hentaði mér mjög vel þar sem ég hef meiri ánægju af því að vera úti á vinnumarkaðnum en að sitja á skólabekk. Félag heilbrigðisritara er stofnað 2005 og sá Guðríður Guðbjörnsdóttir um stofnun þess. Hún lagði mikla vinnu í félagið og við gerðum hana að heiðursfélaga á aðalfundi þess í júní 2020.“
Sameyki ryður veginn
Braghildur segir að starfsemi félagsins hafi legið í dvala í heimsfaraldrinum en fram að honum hafi það verið nokkuð virkt.
„Það var alveg virkt fram að faraldrinum. Ég hef verið formaður þess frá 2020 þegar fyrrverandi formaður hvarf á braut í nám og önnur störf þegar hún hóf sjúkraliðanám og skipti um starfsvettvang. Ég var þá varaformaður og því tók ég við þessu eiginlega sjálfkrafa. Þegar kemur að samningum þá hefur Sameyki samið fyrir okkar hönd og þannig rutt veginn hvað okkur varðar þegar stofnanasamningar eru gerðir. Það er gott að leita til Sameykis og félagið hefur staðið sig vel vil ég meina fyrir hönd heilbrigðisritara. Í dag eru rúmlega áttatíu skráðir í félagið og einhver fjöldi heilbrigðisritara eru starfandi utan þess. Frá því námið hófst hafa 190 heilbriðgisritarar verið útskrifaðir en ekki nægilega margir skráðir í félagið en félagsaðild kostar einungis þrjú þúsund krónur á ári.“
Engir karlmenn heilbrigðisritarar
Heilbrigðisritarar er láglaunakvennastétt sem krefst þess af fólki að það hafi gott innsæi og gefi aðstæðum fólks gaum.
„Við erum í stöðugum samskiptum við fólk sem er statt í misjöfnum aðstæðum í lífi sínu. Við þurfum að geta sett okkur í spor annarra án þess að vera með dómhörku. Það er lykilatriði, hvort sem við ræðum við fólk símleiðis eða í eigin persónu, þá þarf ávallt að sína nærgætni. Því miður er enginn karlmaður í stéttinni og enn hefur enginn karl sótt um starf heilbrigðisritara svo ég viti til. Þeir eiga alveg erindi í þetta starf og þeir eru mjög mikið velkomnir, okkur vantar þá í framlínustörfin til jafns við konur almennt í stéttina. Þetta er láglauna kvennastétt og þó að við höfum reynt, hefur því verið hafnað af ráðuneytinu að starfið verði lögverndað og heilbrigðisritarar njóti þá um leið þeirrar launaverndar og sérstöðu sem því fylgir,“ segir Braghildur.
Braghildur segir að framundan hjá Félagi heilbrigðisritara sé að efla samskipti þess við Sameyki og hvetja starfandi heilbrigðisritara til að gerast félagar því svo mikilvægt sé að vera sterk heild. „Við viljum vekja athygli á þessu starfi og í framtíðinni er þörf fyrir fólk á þessu sviði í heilbrigðiskerfinu og víðar. Stefnan er að virkja félagið enn frekar og okkur langar til að óska eftir fólki, bæði í starf félagsins og stjórn, og við tökum vel á móti öllum heilbrigðisriturum. Störf félagsins eru fjölbreytt og við stöndum að ýmsu félagsstarfi eins og fagfundum og ferðum á ráðstefnur heilbrigðisstarfsfólk í útlöndum,“ segir Braghildur S. Little að lokum.
Viðtalið birtist í tímariti Sameykis, 4. tbl 2021.