Kæru íbúar Breiðholts og Reykjavíkur

Borgarstjórnarkosningar 2026

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í næstu borgarstjórnarkosningum í 3-5 sæti fyrir Samfylkinguna vegna þess að ég vil standa vörð um hverfið okkar og framtíð þess. Ég bý ásamt fjölskyldu minni í Fellahverfi í Efra-Breiðholti. Uppruni minn og reynsla úr lífinu hefur kennt mér mikilvægi þess að gott samfélag þarf að byggja á sanngirni, tillitssemi við vilja íbúanna, aðgengi þeirra að góðri þjónustu og virðingu fyrir fólki og umhverfi.

Breiðholtið á að vera sterkt og lifandi hverfi en ekki svæði þar sem stórar iðnaðarbyggingar og illa ígrundað skipulag ryðja út grænum svæðum og lífsgæðum þeirra sem í hverfinu búa. Ég vil ekki sjá frekari uppbyggingu á stóru iðnaðarhúsnæði sem á ekki heima í Breiðholti líkt og „græna skrímslið“ sem þegar hefur verið reist. Við eigum að vernda og fegra Breiðholtið og stuðla að lifandi umhverfi með aukinni verslun og þjónustu í kjörnum hverfanna í Breiðholti. Ég vil beita mér fyrir beinnar þátttöku íbúanna í ákvarðanatöku og tryggja að borgaryfirvöld hlusti og fylgi eftir vilja þeirra..

Reykvíkingar hafa lengi lýst óánægju með hvernig borgin tekst á við skipulags- og samgöngumál, þar sem margir telja að skorti á heildarsýn hafi leitt til hnignunar í þjónustu, aukins umferðarálags og ágangi á viðkvæm útivistarsvæði. Mikilvægt er að vernda hinn svokallaða græna kraga sem umlykur Reykjavík, svæði sem borgarbúar njóta daglega til útivistar, náttúruupplifunar og hvíldar og ég vil ekki að byggðin þenjist lengra út í þá átt. Á sama tíma þarf að leysa alvarlegt álag á stofnbrautum borgarinnar, sem eru orðnar óboðlegar í núverandi mynd. Sundabraut er þar lykilverkefni, framtíðar samgönguæð sem mun létta á umferð í Reykjavík, styrkja tengingar við höfuðborgarsvæðið og verður sífellt mikilvægari þegar uppbygging þéttist í Úlfarsádal og í Keldnalandi. Með því að verja græna kragann og ráðast í nauðsynlega húsnæðisuppbyggingu er hægt að bæta bæði lífsgæði og sjálfbærni borgarinnar til framtíðar.

Vegna þessa vil ég leggja mitt að mörkum til að skapa betra Breiðholt og betri borg. Hægt er að sjá mínar helstu áherslur á vefsíðunni minni.

Axel Jón Ellenarson