GREINAR & PISTLAR

Hér birtast ýmsar greinar sem ég hef skrifað um stjórnmál og verkalýðspólitík.

Ertu giggari?

Árelía Eydís Guðmundsdóttir dósent við Háskóla Íslands og Herdís Pála Pálsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri hjá Deloitte á Íslandi sendu nýverið frá sér bókina Völundarhús tækifæranna. Þar fjalla þær um byltingu svonefndra giggara á vinnumarkaði eins og nú er í tísku að kalla verktaka.

Lesa meira.

Bæjarblokkin

Í bæjarblokkinni er alltaf matartíminn á slaginu klukkan sjö. Við sitjum við eldhúsborðið öll fjölskyldan. Kjötbollur, grænar baunir, kartöflur og sulta. Pabbi situr næst útvarpinu við vegginn, lestrarhesturinn situr á móti honum, ég við hliðina á pabba og elsta systir mín, bandamaður minn, á móti mér og mamma við enda borðsins, svo hún geti haft allt við höndina; meiri mjólk úr ísskápnum, meiri sultu, fleiri bollur.
„Þegar ég var lítill drengur át ég bara rúgbrauð og fisk, og það var bara étið tvisvar á dag fyrir vestan, nú borðum við kjötbollur með brúnni sósu og sultu elsku börnin mín.“ sagði pabbi og stakk gaflinum í skrælda kartöflu og hækkaði styrkinn í gamla útvarpinu þegar klukkan í því hóf að slá sjö slög.

Lendar elskhugans

Ó guð, hugsaði ég þegar ég sá hana á gangi
Ó guð, hugsaði ég þegar hún brosti til mín
Ó guð, hugsaði ég þegar ég hún rétti mér kaffibollann
Ó guð, hugsaði ég þegar hjörtu okkar slógu í takti
Ó guð, hugsaði ég þegar hún bað mín
Ó guð, hugsaði ég þegar hún fæddi börnin
Ó guð, hugsaði ég þegar hún kyssti mig bless

Bara einn drykk

Ég gat aldrei fengið mér aðeins einn drykk. Ég drakk allt sem ég komst yfir. Ég lenti í áflogum, ég fór í blakkát, ég týndi fötunum mínum, ég særði meðbræður mína, ég vaknaði á sjúkrahúsi, ég kom mér í fangelsi, ég rústaði sambandi mínu við fjölskylduna. Þannig var nú það þegar ég ætlaði bara að fá mér einn drykk.

Meðvirkur

Í hjarta mínu tifar tímasprengja,
í óvissu um hvenær á að berjast,
og hvenær á að elskast.
Við þá
sem ég hata,
og þá
sem ég elska.

Út á Viðeyjarsundi

Út um bílrúðuna blasir við mér Viðey þegar ég ek eftir Kleppsveginum. Þangað sigldi Hafsteinn á Skúlaskeiðinu, því sama og hann sigldi frá Kanada, sagði hann mér á leið út í eyjuna. Ég vildi vera eins og Hafsteinn þegar ég yrði stór; sjómaður, hetja hafsins. Skúlaskeið var skipið mitt. „Mörg skip hafa farist hér á sundinu,” kallaði hann til mín inn í lúkarinn um leið og aldan lamdi byrðinginn. Ég horfði á ölduna ganga yfir bátinn þar sem kapteinninn stóð úti á dekki og hélt um stýrið með sínum veðruðu krumlum. Hann leit ekki af mér og hrópaði, „þá slær kirkjuklukkan í eyjunni þó engan sé þar að sjá,” kallaði hann til mín.
Ég gekk á land í rökkrinu upp að kirkjunni þegar Skúlaskeiðið hélt til baka. Það fór að hvessa. Ég flúði veðrið inn í krikjuna, lokaði kirkjudyrunum að baki mér og gekk upp að altarinu, aleinn. Veðrið óx. Ég barðist gegn óttanum sem umvafði mig lymskulega. Ég settist fremst á kirkjubekkinn og starði upp á krossinn. Kristur starði á móti ofan af krossinum. Skelfingin tók völdin þegar kirkjuklukkan glumdi.

Draumar eru til alls fyrst

Þessa setningu hef ég heyrt óteljandi sinnum. Fussaði ég oft þegar svona falleg spakmæli hrundu af vörum fólks í samtali.
Kannski var ég hræddur við það góða, ótti við að óska mér einhvers góðs.
Draumar eru yrir iðjuleysingja, hugsaði ég. Það var bara fólk á flótta sem hurfu inn í dagdrauma. Ég var ekki á flótta frá veruleikanum inn í draumaland!
Svo eltist ég. Draumar eru forsendur alls fyrst.
Mig hefur alltaf dreymt. Ég er mikill draumóramaður. Allt sem ég hef óskað mér í lífinu, kærleikurinn, ástin sem kviknaði á milli okkar, börnin okkar, heimilið okkar.
Framtíðin hefur orðið til vegna drauma.
Draumar eru til alls fyrst.

Eitt högg

Helgin flýgur á móti mér óðfluga og ógnandi enn á ný.
Pabbi minn er góður karl – held ég.
Pabbi er búinn að vera góður við okkur síðan síðustu helgi þegar hann sagði fyrirgefðu. Hann kenndi mér að elska, hann kenndi mér að hata, en líka að treysta engum, ekki treysta kærleikanum. Með einu hnefahöggi.
Ég elska þig, ég lofa að fara með þig að veiða strákurinn minn.
Svona gengur þetta.
Nú er pabbi dáinn.

Leið 8

Þegar við strákarnir í hverfinu klifruðum upp í síldarbrennslustrompinn í Laugarnesinu sáum við í fyrsta sinn yfir hverfin okkar og æskustöðvarnar. Þarna voru þau mörg í uppbyggingu, Sund, Vogar, Kleppsholt, Langholt og Heimar. Úr strompinum sást meira að segja í norðurgafl skólans míns, Langholtsskóla. Þessi hverfi voru okkar æskuslóðir.

Túttubyssur og njólareykingar að hausti. Stríðsmynjarnar við Laugarásbíó sem við klöngruðumst niður í og reyktum saman filterslausan Camel, sem ég hnuplaði frá pabba úr eldhússkápnum heima. Svo flýtti ég mér út úr byrginu til að selja upp áður en þrjúbíó hófst.

Við krakkarnir í bæjarblokkinni keyptum okkur stóra brúna Marengstoppa í bakaríinu á Dalbraut, þangað var stutt að fara úr bæjarblokkunum og oftast fórum við krókaleiðirnar.

Hlupum niðrí Laugardal í frímínútum og kveiktum sinuelda. Úr skólastofunni horfðum við á slökkviliðið slökkva bálið eftir okkur. Kennarinn horfði fjarrænn út um gluggann á eldana og hélt sig við að hlýða okkur yfir lestrarkverið, þó við ilmuðum af sinubruna með sviðnar augabrúnir og hártoppa. Laumuðumst upp á efstu hæð í Austurbrún 4 til að horfa yfir hverfið og út á sundin, þar var alltaf kalt á toppnum. Sigldum með Hafsteini á Skúlaskeiðinu út í Viðey á sumrin og lékum okkur í eynni og sögðum þaðan sögur af draugagangi. Söfnuðum úr fjörunni fjársjóðum og bíttuðum litríkum sorfnum glerbrotum sem hafið skilaði okkur. Hnupluðum frostpinnum úr Kjörbúð Laugaráss á Norðurbrún sem nú er horfin í tímann.

Svo var hangið í Sunnósjoppunni og drukkum við litla kók með lakkrísröri. Þar missti ég framan af vísifingri þegar krullhærði sláninn gekk inn. Fingurinn kíkti út um hurðarfalsið þegar dyrnar skelltust að baki þessa snyrtilega manns. Star Wars og Bruce Lee var umræðuefnið. Fórum í túttubyssustríð við strákana úr Laugarneshverfi. Mamma spurði pabba hvað orðið hafi um hárrúllurnar hennar og hvers vegna vantaði fingurna á uppþvottahanskana. Stoppuðum í Rangá á leiðinni heim eftir skóla og þömbuðum Pólo gosdrykk sem við fengum að láni.

Þetta var tími Griftera og Choppera. Þeir sem voru á Grifter nenntu að hjóla en þeir sem eignuðust Chopper gerðu það vegna þess að það var töff. Á veturna lékum við börnin okkur ekki í holtinu við tólfhæða blokkirnar þar sem við tjölduðum í helgarútilegu á sumrin, heldur skautuðum á tjörnum í móanum í Vatnagörðum dagana langa eftir skóla. Á hverjum morgni gengum við í skólann, í Langholtsskóla, eða tókum Leið 8 og Leið 9 heim úr skólanum. Stundum teikuðum við strætó langleiðina heim eða stukkum aftan á stuðarann ef við sáum bjöllu aka hjá. Fyrir daga griðinganna þegar við gátum rölt niður á bryggju þegar rússnesk skip komu í sundahöfn. Skipverjarnir hentu til okkar rússneskum sígarettupökkum sem við púuðum í gámaborgum og flettum amerískum tímaritum.

Á kvöldin þvædumst við um hverfin og styttum okkur leið í gegnum garðana með lykla um hálsinn.

Æskuminningar frelsis, ævintýra og áhyggjuleysis.