Hér birtast ýmsar greinar sem ég hef skrifað um stjórnmál og verkalýðspólitík.
GREINAR & PISTLAR
Ertu giggari?
Árelía Eydís Guðmundsdóttir dósent við Háskóla Íslands og Herdís Pála Pálsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri hjá Deloitte á Íslandi sendu nýverið frá sér bókina Völundarhús tækifæranna. Þar fjalla þær um byltingu svonefndra giggara á vinnumarkaði eins og nú er í tísku að kalla verktaka.
Bæjarblokkin
Lendar elskhugans
Bara einn drykk
Ég gat aldrei fengið mér aðeins einn drykk. Ég drakk allt sem ég komst yfir. Ég lenti í áflogum, ég fór í blakkát, ég týndi fötunum mínum, ég særði meðbræður mína, ég vaknaði á sjúkrahúsi, ég kom mér í fangelsi, ég rústaði sambandi mínu við fjölskylduna. Þannig var nú það þegar ég ætlaði bara að fá mér einn drykk.
Meðvirkur
Út á Viðeyjarsundi
Draumar eru til alls fyrst
Eitt högg
Leið 8
Þegar við strákarnir í hverfinu klifruðum upp í síldarbrennslustrompinn í Laugarnesinu sáum við í fyrsta sinn yfir hverfin okkar og æskustöðvarnar. Þarna voru þau mörg í uppbyggingu, Sund, Vogar, Kleppsholt, Langholt og Heimar. Úr strompinum sást meira að segja í norðurgafl skólans míns, Langholtsskóla. Þessi hverfi voru okkar æskuslóðir.
Túttubyssur og njólareykingar að hausti. Stríðsmynjarnar við Laugarásbíó sem við klöngruðumst niður í og reyktum saman filterslausan Camel, sem ég hnuplaði frá pabba úr eldhússkápnum heima. Svo flýtti ég mér út úr byrginu til að selja upp áður en þrjúbíó hófst.
Við krakkarnir í bæjarblokkinni keyptum okkur stóra brúna Marengstoppa í bakaríinu á Dalbraut, þangað var stutt að fara úr bæjarblokkunum og oftast fórum við krókaleiðirnar.
Hlupum niðrí Laugardal í frímínútum og kveiktum sinuelda. Úr skólastofunni horfðum við á slökkviliðið slökkva bálið eftir okkur. Kennarinn horfði fjarrænn út um gluggann á eldana og hélt sig við að hlýða okkur yfir lestrarkverið, þó við ilmuðum af sinubruna með sviðnar augabrúnir og hártoppa. Laumuðumst upp á efstu hæð í Austurbrún 4 til að horfa yfir hverfið og út á sundin, þar var alltaf kalt á toppnum. Sigldum með Hafsteini á Skúlaskeiðinu út í Viðey á sumrin og lékum okkur í eynni og sögðum þaðan sögur af draugagangi. Söfnuðum úr fjörunni fjársjóðum og bíttuðum litríkum sorfnum glerbrotum sem hafið skilaði okkur. Hnupluðum frostpinnum úr Kjörbúð Laugaráss á Norðurbrún sem nú er horfin í tímann.
Svo var hangið í Sunnósjoppunni og drukkum við litla kók með lakkrísröri. Þar missti ég framan af vísifingri þegar krullhærði sláninn gekk inn. Fingurinn kíkti út um hurðarfalsið þegar dyrnar skelltust að baki þessa snyrtilega manns. Star Wars og Bruce Lee var umræðuefnið. Fórum í túttubyssustríð við strákana úr Laugarneshverfi. Mamma spurði pabba hvað orðið hafi um hárrúllurnar hennar og hvers vegna vantaði fingurna á uppþvottahanskana. Stoppuðum í Rangá á leiðinni heim eftir skóla og þömbuðum Pólo gosdrykk sem við fengum að láni.
Þetta var tími Griftera og Choppera. Þeir sem voru á Grifter nenntu að hjóla en þeir sem eignuðust Chopper gerðu það vegna þess að það var töff. Á veturna lékum við börnin okkur ekki í holtinu við tólfhæða blokkirnar þar sem við tjölduðum í helgarútilegu á sumrin, heldur skautuðum á tjörnum í móanum í Vatnagörðum dagana langa eftir skóla. Á hverjum morgni gengum við í skólann, í Langholtsskóla, eða tókum Leið 8 og Leið 9 heim úr skólanum. Stundum teikuðum við strætó langleiðina heim eða stukkum aftan á stuðarann ef við sáum bjöllu aka hjá. Fyrir daga griðinganna þegar við gátum rölt niður á bryggju þegar rússnesk skip komu í sundahöfn. Skipverjarnir hentu til okkar rússneskum sígarettupökkum sem við púuðum í gámaborgum og flettum amerískum tímaritum.
Á kvöldin þvædumst við um hverfin og styttum okkur leið í gegnum garðana með lykla um hálsinn.
Æskuminningar frelsis, ævintýra og áhyggjuleysis.