Anna Lára Guðnadóttir er verkefnastjóri innri rekstar í þjónustuveri hjá Sjúkratryggingum Íslands og felast verkefnin hennar í því að sjá um margvíslegt skipulag innan sinnar deildar, s.s. að víxla fólki á vinnustaðnum varðandi vinnustundir í þjónustuverinu o.fl. Hún á sterkar rætur að rekja til Súðavíkur þar sem móðurætt hennar er upprunnin og er hún að hluta til alin upp fyrir vestan og í Grindavík þar sem föðurætt hennar er. Anna Lára og fjölskyldan hennar reynir að heimsækja Vestfirði á hverju sumri og dvelja þar innan um tignarleg fjöll og djúpa og fagra firði þó að hún segist vera sæmilega mikill Grindvíkingur líka þar sem hún ólst upp að hluta.
Úr Landsbankanum til Sjúkratrygginga Íslands
Anna Lára hefur starfað hjá Sjúkratryggingum Íslands í átta ár en hún kom úr bankageiranum.
„Ég var að leita mér að flutningi innan Landsbankans þar sem ég starfaði en það gekk frekar hægt. Ég var nýbúin með fæðingarorlof sem ég var í og keyrði alltaf á milli Reykjanesbæjar og Reykjavíkur þar sem ég bý og var orðin frekar þreytt á því. Ég sá þetta starf auglýst og ég ákvað að vinda kvæði mínu í kross og sækja um. Ég fékk loks starfið og mér líður mjög vel hérna og starfa með yndislegu fólki. Starfið mitt hjá SÍ er afskaplega fjölbreytt og skemmtilegt. Það er alltaf að þróast áfram og taka breytingum því þetta er þjónustustarf. Nú nýverið voru gerðar breytingar á minni deild sem felast í því að deildin var gerð að stuðningsdeild fyrir allar aðrar deildir inna SÍ. Það er margt sem til fellur innan vinnustaðarins, allt frá því að panta inn það sem starfsfólk vantar á vinnustaðinn, yfir í það að gróðursetja plöntur fyrir utan stofnunina. Starfsfólkið í minni deild þarf að þekkja alla innviði stofnunarinnar svo hægt sé að sinna þörfunum vel. Við erum líka mjög mikið að sinna þeim sem þurfa hjálpartæki, afgreiða þau mál og vísa áfram til þeirra aðila sem veita þjónustuna,“ segir hún.
Starf sem krefst umhyggju
Starfsfólk SÍ sinnir skjólstæðingum sem þurfa ýmsa viðkvæma læknisþjónustu. Sjúklingar sem þarfnast læknismeðferðar í útlöndum vegna t.d. krabbameins, eldra fólk sem þarf á hjálpartækjum að halda og skila inn gögnum vegna dánarbús.
„Fólk sem leitar til stofnunarinnar er oft á viðkvæmum stað í lífinu og því þurfum við fyrst og fremst að sýna því tillitssemi og bera umhyggju fyrir þeirra erindi. Við þurfum að hlusta á það og leysa á sem bestan mögulega hátt úr þeirra óskum. Eiginlega öll málefnin sem SÍ er að fást við eru mjög viðkvæm og það má kannski segja að hver og einn sem starfar hér í framlínunni hjá stofnuninni þurfi að vera fjölfræðingur. Þó að starfið geti stundum verið erfitt er gott að hafa í huga að fólk er gott í eðli sínu þótt það sé að takast á við erfitt tímabil í lífi sínu,“ segir Anna Lára.
„Hér er hvatt til þess að starfsfólkið nýti sér endurmenntun og efli sjálft sig. Innan SÍ er að mörgu leyti framsæknari hugsun en í einkageiranum. Frá því ég hóf hér störf hef ég bætt við mig meiri menntun en þar sem ég var áður starfandi og hefur Sameyki verið lykilþáttur í því að ég gat það. Sjóðirnir, námskeiðin og þjónustan sem félagið býður upp á hefur reynst mér mjög vel,“ segir hún.
Frábært að hætta fyrr á föstudögum
„Við höfum innleitt skiptingu vinnuvikunnar í minni deild hjá SÍ. Í fyrstu var starfsfólkið að deila styttingunni yfir vikuna en svo ákváðum við að taka styttinguna út á föstudögum. Þannig að við hættum alla föstudaga klukkan eitt. Þá lokum við stofnuninni, án þess að skerða opnunartíma hennar,sem hefur reynst mjög vel og töluvert betur heldur en þegar tekin var ein og ein klukkustund í senn yfir vikuna. Það er mikil hamingja hjá okkur með þetta fyrirkomulag sem við hófum í maí sl. og var svo ákveðið á síðasta starfsmannafundi að halda áfram þessu fyrirkomulagi með styttinguna og taka hana á föstudögum framvegis. Það er samt þannig að það koma föstudagar sem við þurfum að leysa verkefnin en alla jafna hættum við þá. Í upphafi var ég svolítið smeyk við að missa matar- og kaffitímana. Að manni læddist efi um að þetta yrði ekki nógu gott. En það var farið mjög vel yfir þetta og innleiðingarferlið gekk mjög vel. Við höfum sem sagt stytt vinnuvikuna um þrjár klukkustundir í viku en ekki fulla styttingu. Samt hefur stytting vinnuvikunnar fært manni nýtt líf. Það er kannski svolítið dramatískt að segja það en það er það samt því ég nýt meiri tíma með fjölskyldunni og þar sem ég á þrjú börn og yngsti strákurinn minn er einhverfur get ég notið með honum og fjölskyldunni meiri dýrmæts tíma sem ég annars myndi missa af. Það er bara nýtt líf því föstudagarnir eru svo skemmtilegir og við gerum allskonar saman. Ég bara get ekki hrósað þessu nægilega mikið og þetta er líka mikil kjarabót auðvitað,“ segir Anna Lára brosandi að lokum.